Eftirspurn eftir Íslandi sem áfangastað eykst á næstu árum

Spáð er að fjöldi erlendra ferðamanna muni aukast um 3% …
Spáð er að fjöldi erlendra ferðamanna muni aukast um 3% á næsta ári. Mynd úr safni mbl.is/RAX

Eftirspurn eftir Íslandi sem áfangastað erlendra ferðamanna verður meiri á næstu árum enda hefur ánægja erlendra ferðamanna aukist frá fyrra ári og sömu sögu er að segja um meðmælaskor Íslands hjá erlendum ferðaheildsölum.

Þetta sagði dr. Daníel Svavarsson, forstöðumaður hagfræðideildar Landsbankans, í erindi sínu á ferðaþjónusturáðstefnu Landsbankans sem fer nú fram í Hörpu undir yfirskriftinni Varnarsigur – en hvað svo?

Daníel fór yfir niðurstöður greiningar hagfræðideildar Landsbankans um horfur í ferðaþjónustunni á Íslandi og kom þar ýmislegt fróðlegt fram. Spáð er að erlendum ferðamönnum muni fjölga um 3% á næsta ári og þá er 5% fjölgun erlendra ferðamanna spáð árið 2021 „með fyrirvara um óvissuþætti“ sagði Daníel.

Hann nefndi þó þrjá stóra óvissuþætti sem koma til með að hafa áhrif á fjölda erlendra ferðamanna sem koma hingað til lands og þeir eru brexit, viðskiptastríð Bandaríkjanna og Kína auk þróunar olíuverðs.

mbl.is