Mun spara fólki 30-60 mínútur daglega

Samkomulag ríkis og sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um uppbyggingu á …
Samkomulag ríkis og sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um uppbyggingu á samgönguinnviðum og almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu til fimmtán ára var undirritað í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, telur að nýundirritað sam­komu­lag um upp­bygg­ingu sam­göngu­innviða og al­menn­ings­sam­gangna á höfuðborgarsvæðinu muni stytta ferðatíma íbúa um 30-60 mínútur daglega, sama hvort fólk ferðist um á einkabílum, hjólum, tveimur jafnfljótum eða í strætisvagni. 

Í samkomulaginu felst til dæmis lagning nýrra stofnbrauta og lagning borgarlínu. Stærstum hluti fjármagnsins sem í framkvæmdirnar fer er varið í stofnbrautir. Spurður hverjum sé gert hæst undir höfði segir Sigurður:

„Hér er fullkomið jafnvægi og öllum ferðamátum gert jafn hátt undir höfði. Í því felst lausnin, að menn viðurkenni að engin ein lausn leysi vandann heldur þurfi þær allar til til þess að leysa vandann."

Hann segir samkomulagið það stærsta sem hafi verið gert um samgöngur á höfuðborgarsvæðinu. 

„Höfuðborgarsvæðið hefur lengi kvartað yfir því að þeirra hluti hafi verið of rýr í samgönguáætlunum. Það helgast auðvitað af því að við eru menn að byggja upp grunnkerfið hringinn í kringum landið.“

Umferðargjöld sjá um fjármögnun

Hér er komin breyting á rýrum hluta höfuðborgarsvæðisins, að sögn Sigurðar. „Með þessu erum við að taka mjög stórt skref og við sjáum fyrir okkur að geta leyst þennan umferðarhnút. Ávinningurinn er auðvitað sá stóri ávinningur að fólk sé komið klukkutíma eða hálftíma fyrr heim til sín, alveg sama með hvaða ferðamáta það ferðast.“ 

Svokölluð sérstök fjármögnun á að sjá um stærstan hluta fjármögnunar samkomulagsins. Sigurður segir að þar sé átt við umferðargjöld. 

„Það er auðvitað verið að horfa á svokölluð umferðargjöld en við erum í miðri á að fara að skipta um kerfi og við sjáum fyrir okkur að breytingar á því verði almennar. Hluti af hinni almennu breytingu í samgöngukerfinu á Íslandi.

Eyþór Arnalds, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sagði fyrr í dag að minnihlutinn hefði ekki fengið neina kynningu á samkomulaginu. Sigurður bendir þó á að samkomulagið sé byggt á samgönguáætlun og gögnum sem öllum séu opinber. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert