„Þetta snýst að mörgu leyti um lífsgæði“

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri. mbl.is/Eggert

Dagur B. Eggertsson segir nýtt samkomulag um bættar samgöngur á höfuðborgarsvæðinu vera mikil tímamót. Verið sé að sammælast um það að leita umhverfisvænna leiða til að efla samgöngur og auka þannig lífsgæði íbúa. 

Full­trú­ar rík­is­valds­ins og sex sveit­ar­fé­laga á höfuðborg­ar­svæðinu und­ir­rituðu í dag sam­komu­lag um upp­bygg­ingu sam­göngu­innviða og al­menn­ings­sam­gangna næstu fimmtán árin. Er markmið samkomulagsins að „auka öryggi, bæta samgöngur fyrir alla ferðamáta og minnka tafir, stórefla almenningssamgöngur og draga úr mengun af völdum svifryks og losun gróðurhúsalofttegunda til að standast við loftlagsmarkmið stjórnvalda og sveitarfélaga.“

Áætlaður kostnaður vegna framkvæmdanna er 120 milljarðar króna, en um er að ræða mestu samgöngubætur í sögunni eftir því sem fram kemur í samkomulaginu. 

Mikilvægt að gæta að umhverfinu

Dagur segir það mikið fagnaðarefni að þvert á flokka sé verið að leita grænna og sjálfbærra leiða í samgöngum á höfuðborgarsvæðinu til framtíðar, sérstaklega hvað varðar almenningssamgöngur. 

Frá undirritun samkomulagsins í dag.
Frá undirritun samkomulagsins í dag. mbl.is/Árni Sæberg

„Það á að gera almenningssamgöngur að miklu betri og grænni valkosti. Þetta snýst að mörgu leyti um lífsgæði og í þessu samkomulagi er með þverpólitískri samvinnu verið að bæta kjör íbúa á sama tíma og verið er að gæta að umhverfinu til framtíðar,“ segir Dagur og bætir við að það sé mikið gleðiefni að sýr áætlun um uppbyggingu borgarlínu á höfuðborgarsvæðinu liggi nú fyrir. 

Þá segir Dagur að á næstu fimmtán árum séu áætlaðar samgöngubætur sem hefðu á núverandi framkvæmdarhraða tekið fimm áratugi. Það sýni glöggt raunverulegan framkvæmdavilja allra aðila sem „komi úr mörgum áttum og mörgum flokkum. Þetta eru mikil tímamót, bæði hvað varðar aðgerðir í loftlagsmálum og gæði samgangna á höfuðborgarsvæðinu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina