„Ákveðin vonbrigði“

„Ég myndi segja að þetta væru ákveðin vonbrigði,“ sagði Jóna Þórey Pétursdóttir, formaður Stúdentaráðs HÍ, eftir að ríkisstjórnin afþakkaði að skrifa undir tillögur um aðgerðir í loftslagsmálum. Þó hafi það verið framför að ákveðið hefði verið að hafa samráð við ungt fólk við vinnu í aðgerðaráætlun.

Loftslagsverkfall ungs fólks hélt áfram á Austurvelli í dag þar sem fjöldi fólks koma saman til að skora á stjórnvöld að grípa til aðgerða í loftslagsmálum en ríkisstjórnin fékk á þriðjudag tillögur um aðgerðir.

Þær voru tvíþættar: annars vegar að lýst yrði yfir neyðarástandi vegna hamfarahlýnunar og hinsvegar að því hlutfalli af landsframleiðslu sem IPCC (Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna) leggur til að allar þjóðir leggi til málaflokksins vegna hlýnunar jarðar yrði mætt, en það eru 3,5%.

Í myndskeiðinu er rætt við Jónu Þóreyju og Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra að fundinum loknum.

Sjá má kröfugerðina í viðhengi með fréttinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert