„Rennur allt upp úr sama vasanum“

Runólfur segir að val um fjölbreytta samgöngumáta komi sér vel …
Runólfur segir að val um fjölbreytta samgöngumáta komi sér vel fyrir alla. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Við leggjum áherslu á það að stíga mjög varlega til jarðar varðandi hugmyndir um vegtolla sem eru því miður allt of kostnaðarsamar hugmyndir og þetta rennur jú allt upp úr sama vasanum,“ segir Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB.

Áætlað er að leggja um­ferðar- og flýtigjöld á á höfuðborg­ar­svæðinu árið 2022, þegar fram­kvæmd­ir sam­komu­lags sveit­ar­fé­laga á höfuðborg­ar­svæðinu og rík­is­ins um upp­bygg­ingu sam­göngu­innviða og al­menn­ings­sam­gangna eru komn­ar vel af stað.

Runólfur segir að ýmislegt í samkomulaginu líti vel út, þá sérstaklega ef markmiðum þess um að fólk velji sér fjölbreyttari samgöngumáta verði náð.

Segir vegtolla of kostnaðarsama

Spurður hvort það sé ekki eðlilegt að þeir sem nýti sér vegina greiði fyrir þá segir Runólfur:

„Það er eðlilegt að umferðin borgi þann kostnað sem af henni hlýst en við höfum lagt áherslu á það að það er verið að innheimta í sköttum og gjöldum af bílum um það bil 80 milljarða á ári af hálfu hins opinbera. Aðeins hluti af þeim fjármunum er varið til samgöngumála svo það þarf alltaf að skoða þetta í heildarmyndinni.“

Runólfur segir að vegtollar muni kosta sitt. „Við vörum við hugmyndum um lausnir sem eru allt of kostnaðarsamar fyrir lítið samfélag. Við sjáum fyrir okkur að þetta gæti verið mjög kostnaðarsamt í uppsetningu og rekstri að því ógleymdu að það myndi kosta skattborgarana mikla fjármuni og mismuna fólki eftir búsetu.“

FÍB fékk ekki að fylgjast með ferli samkomulagsins þrátt fyrir óskir um slíkt.

 „Við óskuðum eftir því að fá að kíkja í pakkann á fyrri stigum þegar það var farið að leka út að það væri eitthvað í burðarliðnum. Bæði óskuðum við eftir því við samgönguráðuneytið og sveitarstjórnaraðila svo við erum í sjálfu sér bara að sjá þessa pappíra fyrst í gær og svo fáum við frekari kynningu núna á eftir,“ segir Runólfur.

Hann er þó vongóður um að stjórnvöld hlusti á samtökin.  „Menn hljóta að hlusta á samtök 18.000 fjölskyldubifreiðaeigenda sem eru auðvitað fulltrúar notenda. Fram að þessu hafa menn einhvern veginn ekki haft þann hóp í huga við gerð þessara lausna.“

Fagnar fjölbreyttum samgöngumátum

Runólfur segir að það sé jákvætt fyrir alla að ýmsir samgöngumátar séu styrktir með samkomulaginu.

„Í nútímasamfélagi eru þessir valkostir, góðar almenningssamgöngur, greiðar og öruggar hjóla- og gönguleiðir samhliða góðu umferðarflæði fyrir ökutæki hin æskilega staða. Sú sýn á hlutina er sú sýn sem við sem félag, sem hluti af alþjóðlegum samtökum bifreiðafélaga hafa markað um heim allan á undanförnum árum. Það þarf auðvitað að tryggja gott flæði og góðar samgöngur og þá þarf þetta allt að fara saman.“

Spurður hvort hann telji að sáttmálinn muni í raun verða til þess að umferðarþungi minnki segir Runólfur:

„Maður vonar það í sjálfu sér en þetta er á hugmyndastigi enn þá. Því miður hafa samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu verið á ákveðnum ís í allt of langan tíma og það hefur frekar verið viðleitni til að þrengja að umferðinni  frekar en að greiða leiðir og greiða úr flækjum. Það er bara vel að menn hafa bundist samtökum um það að setjast niður og reyna að leysa þetta, að hætta að byggja múra og fara að byggja brýr.“

mbl.is

Bloggað um fréttina