Tekur ekki afstöðu til nákvæmrar upphæðar bóta

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tekur ekki afstöðu til nákvæmrar upphæðar sanngirnisbóta.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tekur ekki afstöðu til nákvæmrar upphæðar sanngirnisbóta. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta er í raun og veru einfalt frumvarp sem felur í sér heimild stjórnvalda til að greiða út bætur til þessara aðila, sem og afkomenda og aðstandenda. Frumvarpið felur í sér ákveðin tæknileg atriði og til að mynda er tekið þar fram að þetta hafi ekki af þeim möguleikann á því að fara í dómsmál,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra um frumvarpið sem hún lagði fram í ríkisstjórn í morgun til laga um sanngirnisbætur vegna Guðmundar- og Geirfinnsmálsins í samtali við mbl.is.

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun að frumvarpið yrði lagt fram á Alþingi og kveður frumvarpið á um heimild ráðherra til að greiða sanngirnisbætur til þeirra sem sýknaðir voru með dómi Hæstaréttar 27. september 2018. Bætur verði einnig til aðstandenda þeirra sýknuðu sem fallnir eru frá.

Byggist á drögum frá sáttanefnd

„Í greinargerð er rakinn aðdragandi þessa máls þ.e.a.s. frá sýknudómnum og skipun sáttanefndar stjórnvalda. Frumvarpið byggist á drögum frá sáttanefndinni þar sem þetta upplegg um sanngirnisbætur er lagt upp og gerð grein fyrir stöðu þeirra mála miðað við síðustu umleitanir þar sem gert var ráð fyrir því að heildarupphæð þessara bóta væri 759 milljónir króna og því hvernig þær skiptust,“ útskýrir Katrín og bætir við:

„Það kemur fram í greinargerð. Við leggjum ekki til tiltekna upphæð í þessu frumvarpi heldur vísum til þess að nú muni þessar umleitanir halda áfram samhliða vinnslu frumvarpsins og það sé þá ákveðið viðmið hvar málið er statt.“

Hvernig er þá gert ráð fyrir því að upphæð sanngirnisbótanna verði ákveðin?

„Hún verður ákveðin á þessum grundvelli, hún getur tekið einhverjum breytingum en mun byggjast á þessum grundvelli sem þarna er lagður upp.“

Hún segir að frumvarpið muni ekki hafa áhrif á aðra en voru sýknaðir í Hæstarétti 27. september á síðasta ári og tekur því hvorki svokallaðra Klúbbmanna né Erlu Bolladóttur.  „Þetta hefur ekki áhrif á þá [Klúbbmenn] né Erlu Bolladóttur og þetta svarar ekki þeim spurningum. Þetta snýst um þennan tiltekna sýknudóm,“ segir hún og staðfestir að einhugur sé í ríkisstjórn fyrir framlagningu frumvarpsins.

Spurð hvort að hún hafi persónulega skoðun á því hvaða upphæð gæti talist sanngjörn í þessu máli segir hún að hún vildi byggja á þeim grunni sem sáttanefndin lagði upp með og hún hefði talið og teldi enn að hann væri rökstuddur vel. „Ég er ekki að fara taka afstöðu til nákvæmrar upphæðar í þeim málum,“ segir hún að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert