„Það er gaman að fá að brjóta ísinn“

Rúnar Örn Ágústsson tók þátt fyrir hönd Íslands á heimsmeistaramótinu …
Rúnar Örn Ágústsson tók þátt fyrir hönd Íslands á heimsmeistaramótinu í hjólreiðum sem fram fer í Yorkshire á Bretlandi í þessari viku. mbl.is/​Hari

Rúnar Örn Ágústsson kláraði tímaþraut (ITT) karla á heimsmeistaramótinu í götuhjólreiðum á Englandi á miðvikudaginn, fyrstur Íslendinga, en daginn áður hafði Ágústa Edda Björnsdóttir leikið sama leik í kvennaflokki. Rúnar keppti á mótinu gegn sterkustu tímaþrautarmönnum heims, en langflestir sem tóku þátt eru hreinir atvinnumenn meðan Rúnar er í fullu starfi hér heima.

Hann segist hafa náð markmiðum sínum í keppninni, þó alltaf hefði verið gaman að geta gert enn betur, en Rúnar varð í 49. sæti af 57 keppendum. Lenti hann meðal annars í vandræðum á síðustu 20 kílómetrunum með gírbúnaðinn á hjólinu auk þess sem hann hafði ekki haft tíma til að kynna sér brautina nægjanlega vel.

Í ítarlegu viðtali á Hjólafréttum fer Rúnar yfir keppnina og vandamálið með gírbúnaðinn, en hann segir þetta allt safnast saman í reynslubankann. „Það er gaman að fá að brjóta ísinn,“ segir hann og bætir við að hann vonist til þess að þátttaka hans og Ágústu í ár verði til þess að byggt verði ofan á þessa reynslu og unnið markvisst að því að koma hjólaíþróttinni á hærra plan hér á landi með því að senda hjólreiðafólk reglulega á stórmót erlendis.

Rúnar Örn gerir sig klárann í rásmarkinu.
Rúnar Örn gerir sig klárann í rásmarkinu. Skjáskot/UCI

Segir hann í viðtalinu að brautin hafi á köflum verið mjög tæknileg, en líka mjög hröð. Hafi hann hraðast farið á 83 km/klst hraða, en þá var hann samt að reyna að fara ekki of hratt. Gerir hann ráð fyrir að þeir sem hraðast hafi farið hafi verið á vel yfir 90 km/klst hraða niður bröttustu brekkurnar í keppninni, en samtals var hjóluð 54 km leið.

Viðtal Hjólafrétta við Rúnar í heild.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert