Andstæð álögum sem „éti upp“ lífskjarasamninginn

„Það þarf að ræða hvort hægt sé að taka hluta …
„Það þarf að ræða hvort hægt sé að taka hluta af landinu undir byggingu óhagnaðardrifinna félaga svo þetta verði raunverulegur ríkisstuðningur við að leysa úr húsnæðiseklunni,“ segir Drífa Snædal, forseti ASÍ. mbl.is/​Hari

Samgöngusáttmála ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu ætti að fjármagna með breytingum á skattkerfinu, ekki með veggjöldum og sölu á Keldnalandi. Þetta segir Drífa Snædal, forseti ASÍ. Veggjöld gætu orðið til þess að éta upp það sem hefur unnist með nýgerðum lífskjarasamningi.

Áætlað er að 60 milljarðar af 120 milljörðum sem á að verja til framkvæmdar sáttmálans komi úr svo kallaðri sérstakri fjármögnun. Hún mun samanstanda af umferðar- og flýtigjöldum ásamt sölu á ríkiseignum, svo sem Keldnalandi.

Keldnalandi var nýlega lofað í annað verkefni, hið erfiða verkefni að leysa húsnæðisvandann á höfuðborgarsvæðinu, og var það hluti af lífskjarasamningnum. Ragnar Þór Ingólfsson, formaður stéttarfélagsins VR, benti á í viðtali sem birtist í dag að með því að lofa landinu fyrst í lífskjarasamningnum og nú í samgöngusáttmálanum væri verið að selja það tvisvar.

Landið hafi annan tilgang

„Ég er svo sem ekkert óánægð með að Keldnaland sé selt en það verður að hafa í huga að aðalmarkmiðið með því að setja Keldnaland inn í svokallaðan lífskjarasamning var að vinna úr húsnæðisvandanum, ekki það að fjármagna samgönguáætlun,“ segir Drífa Snædal í samtali við mbl.is.

„Það þarf að hafa það í huga að allar ákvarðanir sem eru teknar varðandi þetta séu samkvæmt markmiðum lífskjarasamninganna að jafna kjörin og verði ekki til þess að sprengja upp íbúðaverð, hækka íbúðaverð eða neitt slíkt. Markmið lífskjarasamninganna eiga að vera höfð í huga við þessar ákvarðanir sem og allar aðrar.“

Spurð hvort annað landsvæði í ríkiseign gæti komið í stað Keldnalands segir Drífa:

„Það þarf að ræða hvort hægt sé að taka hluta af landinu undir byggingu óhagnaðardrifinna félaga svo þetta verði raunverulegur ríkisstuðningur við að leysa úr húsnæðiseklunni og sæmilegt húsnæðisverð í Reykjavík. Það er stóra markmiðið og það sem við stefnum að og við erum í raun í miðju ferli núna þannig að það má ekki rugla í því.“

Telur aðra tekjumöguleika vænlegri

Ragnar Þór sagði í áðurnefndu viðtali að veggjöld væru í andstöðu við lífskjarasamningana. Við því segir Drífa:

„Við höfum náttúrlega bent á aðra tekjuöflunarmöguleika. Höfum gert það algjörlega samkvæmt okkur í heilt ár, það er að segja að breyta skattkerfinu þannig að þeir sem eru aflögufærir greiði meira. Við munum ekki sætta okkur við að það verði lagðar álögur á fólk sem éta upp þá samninga sem við vorum að gera.“

Drífa segir að innan ASÍ eigi eftir að ræða hvort félagið muni beita sér gegn veggjöldum ef til þeirra kemur.  „En það er auðvitað hægt að ímynda sér alls konar útfærslur sem verði til hagsbóta fyrir vinnandi fólk en éti ekki þann ávinning sem við náðum til dæmis með skattalækkunum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina