„Ég er ekki einu sinni skírð“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/​Hari

„Ég get bara viðurkennt að persónulega hef ég ekki haft sterka skoðun á þessu máli,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra spurð um hennar afstöðu til þingsályktunartillögu þess efnis að ríkisstjórn verði falið að leggja fram frumvarp um fullan aðskilnað ríkis og kirkju.

Þing­menn fjög­urra flokka hafa lagt fram þings­álykt­un­ar­til­lögu þess efn­is að rík­is­stjórn verði falið að leggja fram frum­vörp um full­an, laga­leg­an og fjár­hags­leg­an aðskilnað rík­is og kirkju. Skuli frum­varp lagt fram eigi síðar en á vorþingi 2021 og kveða á um aðskilnað eigi síðar en við árs­lok 2034, eft­ir fimmtán ár.

Tekur tillit til beggja sjónarmiða

„Það er þannig að minn flokkur samþykkti fyrir allmörgum árum ályktun um að hann styddi aðskilnað ríkis og kirkju. Það var reyndar naumur meirihluti fyrir því,“ segir Katrín í samtali við mbl.is en bætir við:

„Ég tek líka tillit til þess að í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá árið 2012 var sérstaklega spurt um hvort það ætti að vera ákvæði um þjóðkirkju í stjórnarskrá og meirihlutinn taldi að svo ætti að vera.“

Sjálf hafi hún ekki sterkar skoðanir á málinu heldur hlusti á flokkinn sinn og taki tillit til niðurstöðu ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslunnar.

En ert þú trúuð?

„Ég er ekki í kirkju, ekki í þjóðkirkjunni og ég er ekki einu sinni skírð, en ég fer hins vegar reglulega í kirkju, ekki af því ég þarf þess heldur af fúsum og frjálsum vilja,“ svarar Katrín.

„Ég hef líka mikinn áhuga á trúmálum og ég held að ég geti alveg sagt að í mér sé ákveðinn trúleiki,“ bætir hún við.

Katrín Jakobsdóttir.
Katrín Jakobsdóttir. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is

Bloggað um fréttina