Samgöngusáttmáli í mótsögn við markmið

Björn hefði viljað sjá meira fjármagni varið í hjólastíga. Myndin …
Björn hefði viljað sjá meira fjármagni varið í hjólastíga. Myndin er frá bíllausa deginum sem Samtök um bíllausan lífsstíl stóðu að. Haraldur Jónasson/Hari

Björn H. Sveinsson, formaður Samtaka um bíllausan lífsstíl, segir umferðarsáttmála ríkisstjórnarinnar og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu í mótsögn við fyrri yfirlýsingar og markmið yfirvalda. Þrátt fyrir að mikið fjármagn sé lagt í almenningssamgöngur, hjóla- og göngustíga, efast Björn um að aðgerðirnar muni fá fleiri til að leggja bílnum. 

„Ríkisstjórnin og forsætisráðherra hafa sagt að við þurfum að minnka umferð og útblástur og annað slíkt en aðgerðir eins og breikkun vega og Miklabraut í stokk eru mjög líklega til þess fallnar að valda aukinni umferð,“ segir Björn. 

Hann fagnar þó samkomulaginu og segir ýmislegt jákvætt í því. „Það er alveg ástæða til bjartsýni. Það eru mjög flottar aðgerðir þarna áætlaðar á næstu fimmtán árum sem hafa áður verið áætlaðar á lengri tíma eins og til dæmis bygging borgarlínu. Það er mjög jákvætt að verið sé að setja gott trukk í það.“

Hjólastígar gætu hjálpað mörgum hratt

Björn segir að hann hefði viljað sjá meira gert fyrir hjólreiðafólk og að hjólastígar hefðu átt að vera settir í forgang. 

„Það er gert nokkuð vel við almenningssamgöngur í þessum pakka en ég væri til í að sjá meira fara í uppbyggingu hjólastíga. Til hjóla- og göngustíga rennur sirka jafn há upphæð og á að fara í ljósastýringar. Hjólastígar eru til dæmis eitthvað sem er hægt að byggja mjög hratt upp og eru einfaldir í framkvæmd. Þeir hjálpa gríðarlega mörgum mjög hratt miðað við aðrar aðgerðir.“

Fyrr í dag sagði Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri að gerð hjólreiðastíga væri ofarlega á blaði í sáttmálanum. 

Ólíklegt að fólk muni leggja bílnum 

Gert er ráð fyr­ir að 52,2 millj­arðar fari í stofn­vegi, 49,6 millj­arðar í innviði borg­ar­línu og al­menn­ings­sam­göng­ur, 8,2 millj­arðar í göngu- og hjóla­stíga, göngu­brýr og und­ir­göng og 7,2 millj­arðar í bætta um­ferðar­stýr­ingu og sér­tæk­ar ör­yggisaðgerðir.

Spurður hvort hann sé bjartsýnn á að margir muni leggja einkabílnum vegna aðgerðanna segir Björn:

„Það sem orkar svolítið tvímælis er að við viljum breyta ferðavenjum og ríkisstjórnin hefur sagt það en ætlar aftur á móti líka að auðvelda fólki að keyra. Það er það sem gæti gert það að verkum að þetta gangi ekki jafn vel og vonast er til. Þegar nýtt fólk kemur inn í umferðina þá er líklegt að það kjósi einkabílinn ef það er enn þá auðveldara og skilvirkara.“

Umræða hefur verið um það að sáttmálinn verði að stórum hluta fjármagnaður með veggjöldum Björn segir önnur gjöld vænlegri en veggjöld. Hann er frekar fylgjandi því að virðisaukaskattur sé settur aftur á rafbíla en að veggjöldum sé komið á.

„Þó að rafbílar séu skárri en venjulegir bílar þá auka þeir samt umferð og hafa margvísleg skaðleg áhrif á heilsu í för með sér,“ segir Björn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert