Isavia sýni Heimakletti virðingarleysi

Önnur gröfin sem ISAVIA hefur nú þegar tekið en fyrirtækinu …
Önnur gröfin sem ISAVIA hefur nú þegar tekið en fyrirtækinu hefur verið gert að fylla upp í hana. Ljósmynd/Svavar Steingrímsson

Bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum telur Isavia sýna náttúru Vestmannaeyja virðingarleysi með áætlunum um nýja sólarorkustöð á toppi Heimakletts. Tillögu sjálfstæðismanna innan bæjarstjórnar, sem eru í minnihluta í bæjarstjórn, er laut að því að mótmæla áformunum var hafnað.

Málið er þannig vaxið að Isavia þarf að tryggja flugljósi á toppi Heimakletts rafmagn fyrir öruggar flugsamgöngur. Þar er nú rafmagnskapall sem hefur tryggt ljósinu rafmagn en í honum hefur komið upp ólagfæranleg bilun.

Isavia vill ekki leggja nýjan kapal, þrátt fyrir að þeim hafi nú þegar verið gert að fjarlægja gamla kapalinn, heldur setja upp sólarorkustöð á toppi Heimakletts, sem mun að mati Hildar Sólveigar Sigurðardóttur, bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, hafa slæm sjónræn áhrif. 

Staðsetningar í hvarfi hugnast Isavia ekki 

Áður hafði umhverfis- og skipulagsnefnd samþykkt tvær aðrar staðsetningar fyrir sólarorkustöðina. Þær staðsetningar eru í hvarfi en hugnast Isavia ekki. Staðsetningin á toppi Heimakletts hefur nú verið samþykkt. 

Hildur Sólveig Sigurðardóttir, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.
Hildur Sólveig Sigurðardóttir, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. Ljósmynd/Aðsend

„Það var búið að finna hentugustu staðsetninguna sem var í hvarfi. Þeir voru búnir að jánka henni og ætluðu að koma og kynna sér þetta en svo mörgum mánuðum síðar skipta þeir um skoðun og þessi staðsetning hugnast þeim ekki lengur svo nú á að setja orkustöðina á stað sem er meira sjónrænt áberandi,“ segir Hildur í samtali við mbl.is.

Isavia gróf tvær stórar grafir

Á fundi bæjarstjórnar í vikunni lögðu bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins það til við bæjarstjórn að Isavia yrði gert að leggja rafmagnskapal þar sem upprunalega samþykkt staðsetning hugnaðist þeim ekki lengur. Sú tillaga var felld af meirihluta bæjarstjórnar. 

„Fulltrúar okkar í minnihluta Sjálfstæðisflokksins í ráðinu mótmæltu þessu þar sem þetta er ofboðslega mikið kennileiti og náttúruperla en tillögu okkar var hafnað,“ segir Hildur. 

„Af orðræðu allra bæjarfulltrúa sem tóku þátt í umræðu um málið virtist lagning rafmagnskapals vera ákjósanlegasti kosturinn í stöðunni en bæjarstjóri og aðrir fulltrúar meirihlutans virtust ekki tilbúnir að taka slaginn við Isavia í þessu máli, því er ver og miður.“

Hildur segir að Isavia hafi nú þegar unnið mikil náttúruspjöll á Heimakletti. 

„Það er líka framgangan hjá þeim hingað til sem hefur verið svo gagnrýniverð. Þeir eru nú þegar búnir að taka tvær stórar grafir uppi á toppi Heimakletts fyrir orkustöðinni sem var aldrei búið að samþykkja. Þeir grófu þær því í leyfisleysi og var þeim gert að fylla upp í þær. Það skilur náttúrlega eftir sig mjög ljót sár en á Heimakletti er náttúrlega mjög algeng gönguleið og náttúruperla sem bæði bæjarbúar og gestir njóta að heimsækja.“

Gröfin skilur eftir sig sár. Hér sést ljósið sem þarf …
Gröfin skilur eftir sig sár. Hér sést ljósið sem þarf á rafmagni að halda. Ljósmynd/Svavar Steingrímsson

12-20 milljónir of mikill kostnaður

Isavia hugnast ekki að leggja nýjan rafmagnskapal því það sé of kostnaðarsamt. Í pistli á vef Eyjafrétta fjallar Hildur um málið og segir hún að slík framkvæmd kosti líklega á bilinu 12-20 milljónir. Þá bendir hún einnig á að á síðasta ári hafi hagnaður Isavia verið 4,2 milljarðar. Isavia hefur ekki greint frá því hvað uppsetning sólarorkustöðvarinnar muni kosta.

„Mér skilst að þetta sé líka eitthvert praktískt mál hjá þeim, þeir eigi nú þegar til einhverja orkustöð sem þeir vilja bara skella þarna upp og steypa niður. Þá spyr maður sig líka hvort byggingin muni falla að umhverfinu,“ segir Hildur. Lítið hefur heyrst frá Isavia vegna málsins og Hildur telur það greinilega ekki forgangsmál.

„Eðli málsins samkvæmt hefði maður viljað gera miklar útlitskröfur og helst sem minnst sjónrænt inngrip í þessa náttúruperlu,“ segir Hildur.

Treystir Isavia ekki til að vinna verkið vel

Isavia var gert að fjarlægja gamla kapalinn. „Þess vegna hefði maður haldið að sú framkvæmd að leggja nýjan í sömu átt og gamla kapalinn ætti ekki að vera það kostnaðarsöm eða flókin.“

Nýja staðsetningin hefur nú verið samþykkt og Isavia hefur því heimild til að ganga frá framkvæmdinni. Um það hvort hún muni verða áberandi segir Hildur:

„Já, þetta hefur áhrif á ýmislegt, á loftmyndir af klettinum og á þá sem koma siglandi að klettinum. Þá sést þetta á gönguleiðinni auðvitað fyrir þá sem koma þarna upp.“

Hildur segir að grafirnar tvær sem Isavia tók í leyfisleysi bendi til þess að illa verði staðið að framhaldinu.

„Miðað við framgönguna hingað til þar sem svona lítil virðing hefur verið borin fyrir umhverfinu þá vekur það ekki traust hjá manni; að þetta verði vel úr garði gert.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert