130 mótorhjólamenn lögðu baráttunni lið

130 mótorhjólamenn af báðum kynjum renndu sér niður Laugaveginn í dag klæddir í föt úr tvídefni í þeim tilgangi að vekja athygli á baráttunni gegn krabbameini í blöðruhálskirtli og baráttunni gegn sjálfsvígum karlmanna. 

Viðburðurinn var hluti af alþjóðlega viðburðinum Gentleman's Ride en um 130.000 manns í 700 borgum tóku þátt í uppákomunni. 

„Þetta hefur aukist alveg svakalega síðustu ár,“ segir Daði Einarsson, einn af skipuleggjendum viðburðarins hérlendis en var þetta í annað skipti sem Gentleman's ride er haldinn hér. 

„Þetta er alþjóðlegur viðburður þar sem klassísk mótorhjól og karlar og konur klæða sig í dapperstíl sem einkennist af tvídjakkafötum, slaufum og bindum,“ segir Daði.

Söfnuðu hátt í tveimur milljónum

Hægt er að heita á íslenska mótorhjólamenn vegna viðburðarins en allt fé sem safnast fer í að styrkja baráttuna gegn krabbameini og sjálfsvígum. Nú þegar hafa Íslendingar safnað hátt í tveimur milljónum.

Samtökin sem halda utan um áheitin heita November Foundation og segir Daði að þau séu sambærileg samtökunum sem að Mottumars standa. 

„Það kom manneskja að utan frá samtökunum til þess að kynnast starfseminni hérna og sjá hvernig væri hægt að beina áheitunum sem safnast. Allir peningarnir sem safnast hérna heima fara út í stóran pott og svo dreifa þau þessu aftur hingað þegar þau eru búin að kynna sér þetta. Á næsta ári verður því hægt að kynna hverjir fengu styrkina úr sjóðnum á þessu ári,“ segir Daði.

Hér má heita á íslensku mótorhjólamennina.

mbl.is