Blaut tuska í andlitið á tryggum starfsmönnum

Vopnafjörður. Mynd úr safni.
Vopnafjörður. Mynd úr safni. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Fyrst  sveitarfélagið getur tekið lán fyrir byggingu á húsnæði og lán fyrir dýpkun á höfninni þá hlýtur sveitarfélagið að geta tekið lán fyrir greiðslu skuldar í þágu starfsmanna sinna,“ segir Bjartur Aðalbjörnsson, nefndarmaður í hreppsnefnd Vopnafjarðar. Meirihluti hreppsnefndar samþykkti í sumar að greiða ekki að fullu skuld sveitarfélagsins til lífeyrissjóðsins Stapa vegna vangoldinna iðgjalda. 

Líkt og greint var frá í Morgunblaðinu fyrir helgi urðu þau mistök árið 2005 á skrif­stofu hrepps­ins að mót­fram­lag sveit­ar­fé­lags­ins í líf­eyr­is­sjóðsgreiðslum ákveðins hóps starfs­manna, var ekki hækkað í sam­ræmi við kjara­samn­inga. Í kjöl­far þess að um­rædd mis­tök upp­götvuðust gerði líf­eyr­is­sjóður­inn Stapi kröfu á hrepp­inn um greiðslu. 

Líf­eyr­is­sjóður­inn Stapi gerði kröfu um að Vopna­fjarðar­hrepp­ur greiddi van­gold­in gjöld tíma­bils­ins að fullu auk 3,5% ávöxt­un­ar, sam­tals um 72 millj­ón­ir króna.  Á hrepps­nefnd­ar­fundi í júní á þessu ári samþykkti meiri­hluti hrepps­nefnd­ar að borga tæp­ar 44,2 millj­ón­ir króna, sem er höfuðstóll tíma­bils­ins auk vaxta á ár­un­um 2013 til 2016 sem munu vera ófyrnd­ir. Ljóst er að uppæðin dugar ekki til að tryggja að staða starfs­manna hrepps­ins verði sú sama og ef rétt iðgjöld hefðu alltaf verið greidd. 

Fram kom í viðtali mbl.is við Sigríði Dóru Sverrisdóttur, sem uppgötvaði umrædd mistök árið 2016, að fyrst um sinn hefði staðið til hjá sveitarfélaginu að greiða að fullu skuld hreppsins við Stapa. 

„Við komum tveir nýir fulltrúar Samfylkingarinnar inn í sveitarstjórn eftir kosningarnar 2018. Þá var þetta mál náttúrlega komið upp og var í vinnslu og við fengum fljótt kynningu á málinu. Þá var stemningin í sveitarstjórn þannig að við ætluðum bara að greiða þessu fólki allt saman. Það átti aldrei að gera neitt annað en að greiða alla skuldina,“ segir Bjartur í samtali við mbl.is. 

Bjartur Aðalbjörnsson.
Bjartur Aðalbjörnsson. Mbl.is/Hari

„Svo þegar líður á veturinn fara einhverjir að tala um það að fara einhverjar millileiðir og greiða ekki allt. Svo bara í rauninni keyrir meirihlutinn þá ákvörðun áfram að greiða bara hluta skuldarinnar. Við vorum náttúrlega ekki ánægð með það og tókum bara afstöðu með launþegum, með starfsmönnum sveitarfélagsins, og greiddum atkvæði samkvæmt því,“ bætir Bjartur við, en samþykkt var á hreppsnefndarfundi hinn 20. júní að greiða skuldina ekki að fullu.

Erfitt að fallast á rök meirihlutans 

Í bókun meirihlutans frá umræddum hreppsnefndarfundi er meðal annars bent á að Stapi hafi aldrei gert athugasemdir við það að hafa tekið á móti of lágum greiðslum frá sveitarfélaginu. Þá þurfi að tryggja að önnur verkefni nái fram að ganga og að þegar sé ljóst að högg komi á fjárhag sveitarfélagsins vegna loðnubrests, 130 milljón króna afskrifta hjá hjúkrunarheimilinu Sundabúð og ofáætlana á rekstarafkomu á síðasta ári upp á rúmar 100 milljónir króna. 

Bjartur segist ekki geta fallist á ofangreind rök meirihlutans fyrir ákvörðun sinni.

„Ég held að það sé rosalega auðvelt að ætla að skýla sér bara á bak við þetta. Það heyrðist á fulltrúum strax í upphafi síðasta vetrar að það væri ekki vilji til að greiða alla skuldina. Upphaflega tilboðið sem við fengum frá Stapa gerði ráð fyrir að við myndum greiða þessar skuldir yfir margra ára tímabil. Núna erum við að greiða þetta niður á einhverjum tveimur til þremur árum. Ef þú setur þetta þannig upp verða upphæðirnar náttúrlega alltaf miklu hærri,“ segir Bjartur. 

Starfsmenn sem hafa haldið tryggð við sveitarfélagið 

Sigríður Dóra sagði í gær að mis­tök hrepps­ins bitnuðu fyrst og femst á þeim sem raun­veru­lega mun­aði um þenn­an mis­mun á líf­eyr­is­sjóðsgreiðslum, en um ófaglærða starfsmenn sveitarfélagsins er að ræða. Bjartur tekur undir orð Sigríðar.

„Flestir þessara starfsmanna eru láglaunafólk og margir hverjir hafa unnið fyrir sveitarfélagið um árabil, jafnvel í áratugi og alltaf greitt sitt útsvar, alið börnin sín upp hérna og haldið tryggð við sveitarfélagið. Svo eru fimm manns í meirihluta sem kasta þessari blautu tusku í andlitið á þeim. Meira að segja beint fyrir framan þau á síðasta sveitarstjórnarfundi þar sem þau samþykktu þessa ákvörðun um að skerða lífeyrisréttindi þessa fólks. Í rauninni er það alveg absúrd að þessir fulltrúar meirihlutans sem starfa í umboði íbúa skuli komast upp með það að koma svona fram við sitt fólk.“

Bjartur segir skiptar skoðanir vera um málið í Vopnafjarðarhreppi. 

„Mér heyrðist fyrst á fólki að það skiptist svolítið í afstöðu sinni til málsins. En núna þegar  þessi mannlega hlið hefur komið upp á yfirborðið og þetta eru ekki lengur bara tölur á blaði heldur höfum við fengið að heyra sögur fólks sem virkilega lendir illa í þessu, þá finnst mér eins og bæjarbúar standi með fólki. Svo er spurning hvað fólk er fljótt að gleyma.“

mbl.is

Bloggað um fréttina