Flókið að hafa uppi á stolnum farangri

Taskan skilaði sér í þessu tilviki en innihald hennar var …
Taskan skilaði sér í þessu tilviki en innihald hennar var umfangsminna en þegar lagt var af stað. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Mál þar sem fatnaði eða öðrum munum er stolið úr farangri eru flókin og erfið viðureignar, að sögn Jóns Þórs Karlssonar, aðalvarðstjóra hjá flugstöðvardeild lögreglunnar á Suðurnesjum.

Það er sérstaklega vegna þess að gjarnan er óljóst hvort farangrinum var stolið hérlendis eða erlendis. 

Í vikunni var flugstöðvardeildinni tilkynnt um að fatnaði hefði verið stolið úr ferðatösku. Ferðataskan sjálf skilaði sér á færibandið á Keflavíkurflugvelli umtalsvert léttari en áður. Eigandi töskunnar var á leið frá Newark-flug­velli í Banda­ríkj­un­um. 

„Þetta er svolítið margslungið. Þetta gerist af og til en er sem betur fer ekki algengt,“ segir Jón Þór. 

„Við skoðum þetta eins og hvert annað þjófnaðarmál en því miður getum við ekki alltaf vitað hvort þetta gerist hérlendis eða erlends. Vandinn liggur stundum þar,“ segir Jón Þór.

„Alls ekki auðvelt“

Málin geta verið flókin, að sögn Jóns Þórs. „Það er alls ekki auðvelt að leysa þetta. Við höfum ýmis úrræði hérna á svæðinu til þess að kynna okkur þetta og fylgjast með farangri. Stóra vandamálið er náttúrlega ef þetta gerist ekki hérna á okkar svæði.“

Jón Þór segir að miðað við þann fjölda fólks sem um Keflavíkurflugvöll fer daglega séu tilfellin þar sem farangri er stolið mjög fá. Það gerist þó af og til, og þá jafnvel eins og umrætt tilvik, að fatnaði sé stolið úr farangi en taskan látin vera. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert