Í sjálfheldu í svartaþoku

Björgunarsveitarmenn að störfum við Tröllafoss í dag.
Björgunarsveitarmenn að störfum við Tröllafoss í dag. Ljósmynd/Slysavarnafélagið Landsbjörg

Björgunarsveitir af öllu Suðurlandi voru kallaðar nú  í kvöld vegna fólks sem var í sjálfheldu í Klifurárgili, sunnan Mýrdalsjökuls. Að sögn Davíðs Más Bjarnasonar, upplýsingafulltrúa Landsbjargar, barst neyðarkall skömmu fyrir klukkan sex í kvöld.

Slæmt símasamband var á staðnum, en svo virtist sem fólkið hefði lent í svartaþoku og upplifað sig í kjölfarið í sjálfheldu. Erfiðlega gekk hins vegar að staðsetja fólkið vegna sambandsleysis og þar sem dimmdi hratt var ákveðið að kalla út björgunarsveitir af öllu Suðurlandi.

Þokunni létti svo nægjanlega til að fólkið náði að færa sig og gekk björgunarsveitarfólk þá fram á fólkið við á í gilinu um hálfáttaleytið í kvöld.

Björgunarsveitir eru nú að flytja fólkið til byggða að sögn Davíðs Más.

Töluvert annríki hefur annars verið hjá björgunarsveitum í dag. Þannig aðstoðuðu þær fyrr í dag fólk sem lenti í sjálfheldu við Tröllafoss í Mosfellsdal. jörg­un­ar­menn þurfti síðan að láta sig síga niður til fólks­ins, sem var óslasað en skelkað. Aðstoðuðu þeir síðan fólkið við að kom­ast niður bratt­ann. Þar þurfti síðan að vaða yfir á og ganga upp að göngu­stíg sem lá niður að bíla­stæði.

Þegar þeim aðgerðum var að ljúka barst beiðni um aðstoð við sjúkraflutningamenn á Nesjavöllum vegna ökumanns mótorhjóls sem lent hafði í óhappi og hélt hluti björgunarsveitarmannanna þangað.

Þá aðstoðuðu björgunarsveitir tvo vélarvanabáta við að komast í land.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert