„Persónuleg átök og slúður“ í Landsbankanum en ekki einelti

Héraðsdómur Reykjavíkur
Héraðsdómur Reykjavíkur mbl.is/Þór

Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði fyrir helgi Landsbankann af kröfu fyrrverandi starfsmanns hjá verðbréfaþjónustu bankans sem krafðist bóta vegna þess að bankinn brást, að hennar sögn, ekki við áreitni og einelti sem hún varð fyrir af hálfu yfirmanns síns.

Krafa starfsmannsins vegna vanrækslu bankans á að taka ábendingar um einelti og áreitni yfirmanns starfsmannsins til greina nam 22 milljónum króna. Sálfræðistofan Líf og sál var fengin til að aðstoða eftir að málið kom upp innan bankans og eftir skoðun lagði sálfræðistofan það meðal annars til að stjórnendur bankans tækju til skoðunar hvort ástæða væri til að setja reglur um áfengisneyslu starfsfólks í tengslum við verkefni þeirra.

Ekki einelti að mati Héraðsdóms Reykjavíkur

Starfsmaðurinn hafði á árinu 2006 verið ráðin til starfa hjá forvera bankans og starfaði þar í verðbréfa- og lífeyrisþjónustu bankans. Samkomulag milli hennar og bankans var undirritað í desember 2016 en starfslokin áttu sér töluverðan aðdraganda. Nokkru síðar fór starfsmaðurinn fram á skaðabætur og miskabætur vegna atvika sem urðu á starfstíma hennar hjá bankanum og hún taldi fela í sér einelti og ofbeldi gagnvart sér sem bankinn bæri ábyrgð á.

Héraðsdómur Reykjavíkur féllst ekki á að um einelti eða ofbeldi hefði verið að ræða eða að bankinn hefði sem vinnuveitandi bakað sér bótaábyrgð gagnvart starfsmanninum. Var bankinn því sýknaður af bótakröfu hennar en málskostnaður felldur niður.

Yfirmaðurinn deildi persónulegum vandamálum sínum

Í stefnu og fyrir dómi kom fram að yfirmaður hennar hjá bankanum hefði frá árinu 2015 farið að deila með henni persónulegum vandamálum sínum og að það hefði sett hana „í erfiða aðstöðu og haft sífellt meiri áhrif á vinnuumhverfi [hennar], faglega og persónulega“. Hún hafi vorið 2016 kvartað yfir framkomu yfirmannsins við mannauðsdeild bankans og haldinn hafi verið sáttafundur.

Hún segir að á síðari hluta árs hafi hegðun yfirmannsins þó ágerst enn frekar og að hann hafi kallað hana inn á fundi á vinnutíma til að ræða mjög persónuleg málefni. 

Fundir í „yfirheyrslustíl“

„Samskiptin hafi farið fram í hálfgerðum yfirheyrslustíl þar sem mörk hins persónulega og faglega hafi verið fullkomlega virt að vettugi af hálfu yfirmannsins.“

Fljótlega hafi þó samstarfsmaður hennar sent mannauðsdeild ábendingu um hegðun yfirmannsins og í kjölfarið hafi ákveðið ferli farið af stað. Sálfræðistofan Líf og sál var fengin til að fara ofan í saumana á málinu og að í því hefði falist að heyra hlið beggja aðila. Meðan rannsókn málsins stóð yfir var báðum aðilum boðið tveggja vikna launað leyfi og þegar starfsmaðurinn kom til baka var henni boðin vinnuaðstaða fjær yfirmanninum sem hún þáði.

Vinkvennasamband milli starfsmannsins, yfirmanns hennar og yfirmanns þeirra beggja

Í desember 2016 barst skýrsla sálfræðistofunnar sem var unnin af þremur sálfræðingum. Niðurstöður þeirra voru að ekki hefði verið um einelti að ræða en að yfirmaðurinn hefði brugðist í hlutverki sínu sem stjórnandi og það hafi dregið dilk á eftir sér.

Í niðurstöðukafla kom meðal annars fram að vinkvennasamband hefði verið milli starfsmannsins, yfirmanns hennar sem og yfirmanns þeirra beggja. Það hefði skapað hlutverkarugling í samskiptum þeirra og hefði hegðun starfsmannsins og yfirmanns hennar farið út böndunum. Þá hefði yfirmaðurinn gert mistök í samskiptum sínum við starfsmanninn, meðal annars með því að setja hana inn í sín persónulega mál, ásakað hana um erfiðleika í eigin hjónabandi og hugsanlega baktalað hana við aðra starfsmenn.

Lagt til að setja reglur um áfengisneyslu starfsfólks

Þar segir að „andrúmsloftið í hópnum hafi verið mjög erfitt, mikil spenna, persónuleg átök og slúður, en enginn viðmælenda hefði tekið undir eineltiskvörtun“ starfsmannsins með afgerandi hætti. Ljóst sé þó að þótt atburðarásin hafi ekki flokkast undir einelti á vinnustað hafi komið upp flokkadrættir og togstreita sem geti orðið jarðvegur fyrir einelti.

Tillögum var beint til bankans að veita aðilum upplýsingar um niðurstöður skýrslunnar og veita starfshópnum fræðslu um samskipti á vinnustað, einelti á vinnustað og aðgreiningu starfshlutverks og persónulegs hlutverks, og lagt var til að stjórnendur tækju til skoðunar hvort ástæða væri til að setja reglur um áfengisneyslu starfsfólks í tengslum við starfstengd verkefni.

Var mjög brugðið við að heyra niðurstöður skýrslunnar

Niðurstaða skýrslunnar var kynnt starfsmanninum seint í desember 2016 á fundi með þremur forstöðumönnum deilda hjá bankanum og henni gerð grein fyrir að fundurinn væri til að kynna niðurstöðu skýrslunnar en væri ekki umræðufundur um hana og var niðurstöðukaflinn lesinn upp.

Starfsmanninum brá mjög við lestur niðurstöðukaflans og var henni á endanum fylgt grátandi út um bakdyr bankans af yfirmanni og sneri hún ekki aftur til vinnu. Nokkrum dögum síðar var starfslokasamkomulag undirritað. Það samkomulag var uppfyllt af báðum aðilum.

Yfirmennirnir báðir áminntir

Í janúar 2017 voru báðir áðurnefndir yfirmenn áminntir og í júlí var þeim yfirmanni, sem sakaður var um einelti og áreitni, vikið endanlega úr starfi vegna „óviðeigandi framkomu“. Hún höfðaði mál gegn bankanum og krafðist bóta vegna uppsagnarinnar. Héraðsdómur sýknaði bankann og hefur dóminum verið áfrýjað til Landsréttar.

Eftir að yfirmanninum var sagt upp störfum leitaði starfsmaðurinn til lögmanns á haustmánuðum 2017 sem krafðist endurupptöku á starfslokasamkomulagi fyrir hönd hennar. Þeirri málaleitan var hafnað af bankanum og þar að auki hefur bankinn ekki viljað afhenda skýrslu sálfræðistofunnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina