Telur lífskjarasamninginn hanga á bláþræði

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR. mbl.is/Hari

„Ég fagna því auðvitað að vissu leyti að komin sé fram samgönguáætlun og tek undir með samgönguráðherra að það sé algerlega fráleitt að verið sé að vinna að þessum málum alltaf í sitt hvoru horninu og kannski til þriggja, fjögurra ára í senn. Að það sé komin langtímaáætlun þar sem allir koma að borðinu, bæði sveitarfélögin og ríkið, er auðvitað gríðarlega jákvætt og full ástæða til þess að fagna því. En við erum hins vegar einfaldlega að verja kjarasamninginn okkar og hagsmuni okkar félagsmanna.“

Þetta segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, í samtali við mbl.is vegna ummæla Sigurðar Inga Jóhannssonar samgönguráðherra um helgina þar sem hann vísaði þeim orðum Ragnars á bug að áform um veggjöld á höfuðborgarsvæðinu til þess að ná inn 60 milljörðum króna til samgöngumála færu gegn lífskjarasamningnum sem samið var um á vinnumarkaði fyrr á þessu ári. Ragnar hefur bent á að markmið samningsins hafi verið að lækka kostnaðinn við það að lifa og auknar álögur fari gegn því.

„Ég tel lífskjarasamninginn þegar hanga á bláþræði þegar við höfum verið að horfa upp á verðlagshækkanir heildsala, framleiðenda og annarra birgja og sömuleiðis í dagvöruverslun og þessi þróun lítur ekki vel út. Ég hef vissar áhyggjur af því að bæði hið opinbera og fyrirtækin séu að gleyma sér. Sérstaklega þegar kemur að því hvaða staða var í þjóðfélaginu áður en við skrifuðum undir lífskjarasamninginn. Það var alger kyrrstaða, hvort sem var í sölu á nýjum bílum eða hverju sem sem var, það héldu allir að sér höndum. Fyrirtækin voru ekki að markaðssetja sig. Það var að myndast alger kyrrstaða í samfélaginu og er þetta sú staða sem menn vilja sjá hérna næsta haust þegar endurskoðun fer fram á samningnum?“ segir Ragnar enn fremur.

Ekki verkalýðshreyfing sem hefur ekki dug

„Það er rosalega erfitt að vinda ofan af því ef menn fara að áforma einhverjar illa ígrundaðar álögur á okkar félagsmenn þegar við þurftum að hafa gríðarlega mikið fyrir því að ná fram nokkrum þúsundköllum í skattalækkanir. Sömuleiðis fyrirtækin, ég hef bara verulegar áhyggjur af því að þar á bæ séu menn aðeins að gleyma sér og hugsi kannski meira um sjálfa sig heldur en aðra þegar þeir hækka verðlag, sérstaklega á dagvörunni, og dembi kostnaði, sem er erfitt að sjá kannski fyrir sér að sé endilega raunverulegur, út í sínar gjaldskrár. Þetta getur haft í för með sér mjög alvarlegar afleiðingar, að samningnum verði sagt upp,“ segir hann. Verkalýðshreyfingin muni ekki sætta sig við slíkt.

Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta er ekki verkalýðshreyfing sem hefur ekki dug til þess að segja upp samningum þegar forsendur bresta. Þar hefur orðið stór breyting á. Ég bara bið menn að hugsa sig um og fara varlega þegar kemur að svona hugmyndum og vilji menn skoða einhverjar aðrar álögur þá bendi ég á fjármagnstekjur og útsvarið þar. Ég bendi líka á það af hverju í ósköpunum sé verið að reisa 10-11 milljarða króna höfuðstöðvar ríkisbanka þegar hægt er að koma honum fyrir í mun ódýrara húsnæði og koma út í plús.“ Ragnar segir ennfremur að rekstur innheimtukerfa vegna veggjalda sé mjög kostnaðarsamur.

„Rekstur og eftirlit þessara kerfa hefur verið mun dýrara og umfangsmeira en menn hafa gert ráð fyrir. Það liggur auðvitað í hlutarins eðli að ef þetta stendur illa eða ekki undir sér í milljóna stórborgum hvernig þetta kemur þá út fyrir lítið samfélag eins og höfuðborgarsvæðið er á þann mælikvarða. Þarna verður auðvitað bara að hugsa út fyrir kassann. Ef vilji er til þess að minnka umferðarálagið í miðborg Reykjavíkur þá er góð byrjun að sleppa því að byggja risastóra vinnustaði á því svæði sem getur varla tekið við þeirri umferð sem leitar þangað í dag. Þetta er bara spurning um almenna skynsemi. Þannig mætti létta mjög á umferðarþunga í miðborginni.“

Stórvarasamt í ljósi niðursveiflunnar í samfélaginu

Ragnar segir að einu gildi auðvitað hvenær gert sé ráð fyrir að byrjað verði að innheimta veggjöld. „Kjaramál okkar félagsmanna eftir fjögur ár eru alveg jafn mikil kjaramál okkar félagsmanna í dag.“ Þá ítrekar hann að málið snúist ekki eingöngu um lægst launuðu tekjuhópana heldur séu allir tekjuhópar undir. Markmiðið með veggjöldunum sé að ná inn fjármagni til þess að fjármagna samgönguframkvæmdir þannig að ef fara eigi þessa leið þýði það alltaf auknar álögur á fólk. Hægt væri að fara ýmsar aðrar leiðir eins og til dæmis með því að hætta við fyrirhugaðar höfuðstöðvar Landsbankans í miðborg Reykjavíkur. „Eins og ég bendi á varðandi höfuðstöðvar Landsbankans sem er ríkisbanki. Þarna væri hægt að færa til einhverja 10-11 milljarða af einum efnahagsreikningi yfir á annan.“

mbl.is/Kristinn Magnússon

Ragnar vísar enn fremur á bug þeim orðum Sigurðar Inga að sala á Keldnalandinu í Reykjavík samræmist lífskjarasamningunum ef selja á landið hæstabjóðanda. „Það að selja Keldnalandið hæstbjóðanda rímar ekki við það samkomulag sem við gerðum um að þarna verði byggt hagkvæmt húsnæði. Þetta þekkjum við til dæmis með Efstaleitið. Þar eru íbúðir sem áttu að vera fyrir fyrstu kaupendur, tveggja herbergja íbúðir á tæplega 50 milljónir, og þar fram eftir götunum. Þetta er í engu samræmi við það sem við töldum okkur vera að semja um. Að það eigi að fara að braska með viðlíka hætti og hefur verið gert hér á liðnum árum og áratugum með byggingarland. Þetta er til dæmis ekki í samræmi við það sem við vorum að semja um í lífskjarasamningunum.“

„Þetta er bara eitt stórt atriði af mörgum sem eru ekki að tikka í boxin okkar þannig að við náum að halda hérna einhverjum þokkalegum stöðugleika í því ástandi sem við stöndum frammi fyrir í dag sem er niðursveifluástand. Það er niðursveifla í samfélaginu og við þurfum að passa okkur á öllu svona. Sérstaklega þegar við erum að ræða um gjaldtöku og annað. Þetta er stórvarasamt í því árferði sem við búum við akkúrat núna og líklegast tekur okkur einhvern tíma að komast upp úr. Þess vegna skiptir máli hvernig þetta verður gert,“ segir Ragnar enn fremur. Eignasala sé ein leið.

Kalla ætti verkalýðshreyfinguna að borðinu

„Talað hefur verið um sölu á Íslandsbanka sem er í sjálfu sér ekkert út úr kortinu. Þetta hefur verið reifað innan hreyfingarinnar að lífeyrissjóðir komi jafnvel eitthvað að kaupum á öðrum ríkisbankanum og ég get svo sem alveg tekið undir þær hugmyndir svo lengi sem tryggt verði að rekstrarformið á slíkri fjármálastofnun verði á samfélagslegri grunni en fjármálakerfið er rekið á í dag. Þannig að það eru til fleiri leiðir. Ég tel ennfremur að það sé ekkert úr vegi að kalla verkalýðshreyfinguna að borðinu líka eins og sveitarfélögin til þess að tryggja að samhliða þessum hugmyndum, sem að mörgu leyti eru góðar, myndist hér ekki kyrrstaða aftur í samfélaginu eins og var hér í aðdraganda síðustu samninga. Það er bara of mikið í húfi,“ segir Ragnar og hrósar að lokum stjórnvöldum.

„Ég vil annars nota tækifærið til þess að hrósa stjórnvöldum sem er ekki oft gert. Ég hef skynjað mikinn vilja hjá stjórnvöldum að samningurinn haldi. Við höfum verið að vinna mjög náið til dæmis með félagsmálaráðuneytinu og Íbúðalánsjóði að því að koma fyrstu kaupa hugmyndunum í gegn og það gengur vel og mér finnst í mörgum málum stjórnvöld vera að draga vagninn. Skattatillögurnar, sem við höfum verið að fara yfir og greina, koma yfirleitt betur út en við sömdum um. Það er ekki mikið rætt um þetta. Þar sem okkar tekjuhópar fá örlítið fleiri krónur og þetta kemur til framkvæmda á styttri tíma heldur en samið var um. Þannig að það er margt líka jákvætt sem hefur gerst en það þarf bara svo lítið til að forsendur verði ekki til staðar og ég er bara mjög hræddur um að það verði enginn slaki gefinn af hálfu hreyfingarinnar og okkar félagsmanna ef við verðum langt frá þeim markmiðum sem við settum okkur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert