„Þetta hefur strítt okkur í rekstrinum“

Það ræðst á næstu dögum hvort takist að fjármagna fiskvinnslufyrirtækið.
Það ræðst á næstu dögum hvort takist að fjármagna fiskvinnslufyrirtækið. mbl.is/Árni Sæberg

„Við höfum verið að reyna að endurfjármagna félagið. Við höfðum ákveðna fjármögnun í Kópavogi en okkur hefur ekki tekist að fá sambærilega fjármögnun upp frá. Þetta hefur strítt okkur í rekstrinum,“ segir Albert Svavarsson, framkvæmdastjóri fiskvinnslufyrirtækisins Ísfisks á Akranesi. Öllum starfsmönnum fyrirtækisins sem eru milli 45 til 50 var sagt upp störfum í dag. 

Fyrirtækið Ísfiskur var stofnað árið 1980 og var með starfsemi sína á Kársnesi í Kópavogi áður en það flutti í húsnæði HB Granda á Akranesi árið 2017 þegar HB Grandi lokaði í sama húsnæði. 

Áfram verður unnið að því að reyna að endurfjármagna félagið meðal annars með aðkomu eigenda og tiltekins sjóðs, sem Albert vill ekki nafngreina. „Ég er alveg vongóður en ég geri ekki ráð fyrir neinu. Við vinnum að þessu verkefni og annaðhvort tekst það eða ekki. Maður er alltaf vongóður þangað til maður er búinn að reyna allt,“ segir Albert. Á næstu vikum mun það skýrast hvort endurfjármögnun náist en ekki verður unnið að málinu lengur en fram um miðjan næsta mánuð. 

Kostnaður við flutning fyrirtækisins úr Kópavogi og upp á Akranes var meiri en áætlanir gerðu ráð fyrir. „Það kostar óhemjumikið að flytja starfsemi og við erum að bíta úr nálinni með það,“ segir hann. Þetta er einn þáttur af nokkrum sem hafa  haft íþyngjandi áhrif. 

Reksturinn hefur ekki verið auðveldur undanfarið og hefur Albert meðal annars greint formanni Verkalýðsfélags Akraness frá stöðunni. „Það er enginn feluleikur í gangi,“ segir hann. Albert segir starfsmannafundinn í dag hafa verið erfiðan en uppsagnirnar hafi eflaust ekki komið öllum á óvart. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert