Vill skoða Keldnaland undir nýjan spítala

Fundurinn var þétt setinn og brunnu ýmsar spurningar á fundargestum.
Fundurinn var þétt setinn og brunnu ýmsar spurningar á fundargestum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þrátt fyrir að ríkið hyggist selja Keldnaland til þess að fjármagna samgöngusáttmálann svokallaða eru líkur á að þar verði reistur nýr Landspítali eftir u.þ.b. tuttugu ár.

Þetta segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Hann er sannfærður um að samgöngusáttmálinn muni fá marga til að leggja einkabílnum þótt formaður Samtaka um bíllausan lífsstíl vilji meina hið gagnstæða. 

Sigurður flutti erindi á opnum fundi framsóknarmanna um samgöngur, þá sérstaklega samgöngusáttmála ríkisins og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu.

Þar vakti fyrrverandi læknir sérstaklega máls á því að ekki ætti að selja Keldnalandið heldur ætti að reisa þar nýjan spítala.

Sigurður Ingi segir í samtali við blaðamann að það sé góður möguleiki að svo verði, þrátt fyrir að landið verði selt.

„Í mínum huga er Keldnaland klárlega kostur sem ætti að skoða.“

Á Keldnalandi á að byggja íbúðir á hagstæðu verði eins og lofað var í lífskjarasamningunum. Sigurður Ingi segir að án efa rúmist þar fjöldi íbúða og einnig nýr spítali þar sem landið sé 130 hektarar að stærð en vel þurfi að huga að skipulagsmálum.

Telur byltingu á leiðinni 

Eitt af markmiðum samgöngusáttmálans er að fleiri nýti sér umhverfisvænar samgöngur, almenningssamgöngur, hjólreiðar og tvo jafnfljóta.

Þar er samt sem áður stórum hluta fjármunanna sem í sáttmálann fara varið í stofnvegi fyrir bílaumferð. Formaður Samtaka um bíllausan lífsstíl gagnrýndi þetta í viðtali við mbl.is sem birtist um helgina. 

Hann sagði mjög ólíklegt að einhverjir myndu leggja bílnum vegna sáttmálans, frekar væru líkur á að fleiri færu að keyra þar sem það væri gert auðveldara. 

Sigurður Ingi segir að það að slík gagnrýni komi fram samhliða gagnrýni um að ekkert sé verið að gera fyrir einkabílinn sé í raun til marks um að markmið sáttmálans muni nást sem er val um fjölbreyttar samgönguleiðir. 

„Ef við berum gagnrýni formanns Samtaka um bíllausan lífsstíl saman við umræður sumra hérna í kvöld sem segja að það sé verið að þrengja að einkabílnum og hann geti ekki verið neins staðar þá held ég að við höfum akkúrat fundið réttu leiðina,“ segir Sigurður Ingi. 

Hann telur raunhæft að margir muni leggja bílnum þegar fleiri fýsilegar samgönguleiðir verða í boði. 

„Þegar þú ert búinn að búa til fjölbreytta möguleika þá getur einmitt hver og einn lagt sitt af mörkum til loftslagsmála sem ég held að margir vilji. Ég held reyndar að það verði bylting með ungu kynslóðinni sem er að vaxa út grasi. Þeirra sjónarmið til þessara hluta er allt annað en þeirra sem eldri eru.“

Fundargestur rauk á dyr

Á fundinum brutust út miklar umræður um veggjöld. Þar spurði einn fundargesta hvort eldsneytis- og olíugjöld yrðu felld niður ef veggjöldum yrði komið á. Sigurður Ingi gat ekki svarað því. 

Einn fundargesta fussaði og sveiaði í erindi sínu yfir áformum um veggjöld áður en hann yfirgaf svæðið og kaus að hlusta ekki á svör Sigurðar við erindinu. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert