Ábending um hvarf Geirfinns enn í rannsókn

Guðmundur Einarsson (t.v.) og Geirfinnur Einarsson.
Guðmundur Einarsson (t.v.) og Geirfinnur Einarsson. Samsett mynd

Halla Bergþóra Björnsdóttir, settur ríkissaksóknari, hefur vísað ábendingu um hvarf Geirfinns Einarssonar til frekari rannsóknar hjá lögreglunni í Vestmannaeyjum, en henni var fyrr á árinu falið að taka afstöðu til rannsókna á tveimur ábendingum varðandi afdrif Guðmundar og Geirfinns Einarssona.

Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag. Þar segir jafnframt að rannsókn á nýrri ábendingu um afdrif Guðmundar, sem Halla Bergþóra vísaði til lögreglunnar á Norðurlandi eystra, hafi verið hætt og teljist lokið.

Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri í Vestmannaeyjum, staðfestir við Fréttablaðið að málið sé enn í rannsókn hjá embættinu, en það snýr að ábendingu frá manni sem sagðist hafa séð þrjá menn koma til hafnar í Vestmannaeyjum á smábáti 20. nóvember 1974, daginn eftir að Geirfinnur hvarf í Keflavík. 

Sá þriðji aldrei komið til hafnar

Tveir menn hafi leitt þann þriðja, sem virtist máttfarinn og rænulítill, á milli sín og dvalið í dágóðan tíma í lokuðu herbergi í verbúð þar til þeir gengu aftur sömu leið til hafnar og um borð í bátinn. Nokkru síðar hafi báturinn komið að bryggju og mennirnir tveir stigið frá borði. Þann máttfarna hafi hann ekki séð aftur. 

Tekin var skýrsla af öðrum manninum og fyrrverandi sambýliskonu hans árið 2016.

Ábendingin um hvarf Guðmundar telst hins vegar fullrannsökuð, að því er fram kemur í Fréttablaðinu, en hún barst frá fyrrverandi sambýliskonu manns sem talinn er hafa orðið til þess að grunur beindist að Sævari Ciesielski.

Í úrskurði endurupptökunefndar um endurupptöku hæstaréttardómsins í málinu kemur fram að gögn sem lögð hafi verið fyrir nefndina gefi sterklega til kynna að maðurinn hafi veitt lögreglu upplýsingar um málið í því skyni að sleppa betur frá sínum eigin afbrotum, en hann hefur viðurkennt að hafa sífellt verið að ljúga í rannsóknarlögregluna í kjölfar hvarf Guðmundar og Geirfinns.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert