Ísland aldrei ódýrt heim að sækja

„Öll frekari gjaldtaka af ferðamönnum á þessum tímapunkti væri mikið …
„Öll frekari gjaldtaka af ferðamönnum á þessum tímapunkti væri mikið feigðarflan,“ sagði Bjarnheiður. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Formaður Samtaka ferðaþjónustunnar segir gengi krónunnar enn of sterkt til að ferðaþjónusta á Íslandi fái að dafna sem skyldi. Segir hún samkeppnishæfni íslenskrar ferðaþjónustu í verðlagi vera afleita og að lítið sem ekkert svigrúm sé í greininni til launahækkana. 

Ferðaþjónustudagurinn 2019 var haldinn í Hörpu í dag. Í ávarpi sínu sagði Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður SAF, að samkeppnishæfni íslenskrar ferðaþjónustu sé eitt mikilvægasta verkefni hagkerfisins í dag. Þar sé þó margt ábótavant. 

Bjarnheiður segir launatengd gjöld í greininni há og dýrt sé að vera með fólk í vinnu auk þess sem grænir skattar fari hækkandi og að „hið alræmda“ tryggingargjald hafi verið lækkað minna en stjórnvöld hafi lofað. 

„Það er einfaldlega mjög dýrt að vera með fólk í vinnu á Íslandi miðað við flest önnur Evrópulönd,“ sagði Bjarnheiður í ávarpi sínu og bætti við að skattbyrði fyrirtækja væri meiri en víða annars staðar.

Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar.
Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar. mbl.is/RAX

Þá sagði Bjarnheiður ólöglega atvinnustarfsemi gera fyrirtækjum og atvinnurekendum í ferðaþjónustu enn erfiðara fyrir. 

„Svört og ólögleg atvinnustarfssemi er enn allt of útbreidd og gerir samkeppnisstöðu fyrirtækja, sem eru með allt sitt uppi á borðum, algjörlega óþolandi. SAF hafa lengi kallað eftir miklu skilvirkara eftirliti með bæði innlendum og erlendum aðilum sem hana stunda og er það ljóst að hér þurfi að gefa verulega í.“

Gengi íslensku krónunnar „fíllinn í stofunni“

Þá sagði Bjarnheiður fílinn í stofunni vera gengi íslensku krónunnar sem sé „einn mest ráðandi þáttur í samkeppnishæfni íslenskrar ferðaþjónustu“.

„Í stuttu máli ætla ég að leyfa mér að fullyrða að krónan sé enn of sterk til að ferðaþjónustan geti dafnað á eðlilegum forsendum miðað við það erfiða rekstrarumhverfi sem hún hrærist í. Það eru bein tengsl á milli gengisvísitölu og afkomu íslenskra ferðaþjónustufyrirtækja,“ sagði Bjarnheiður. 

„Frekari samdráttur í greininni er ein helsta ógnin í hagkerfinu. Verði hann að veruleika muni hann stefni þeim stöðugleika sem áunnist hefur á undanförnum árum, í voða. Launakostnaði hreyfum við ekki við í bili og því hljótum við að horfa til lækkunar á opinberum gjöldum sem til langs tíma skilar sér í meiri tekjum og meira virði. 

„Öll frekari gjaldtaka af ferðamönnum á þessum tímapunkti væri mikið feigðarflan. Nú er hins vegar tækifæri að aflétta sértækum sköttum, eins og gistináttaskatti sem skiptir hið opinbera litlu máli í heildarsamhenginu, en ferðaþjónustuna miklu.“

Ísland aldrei ódýrt heim að sækja

Þá velti Bjarnheiður upp þeirri spurningu hvort ástæða væri til að hafa samkeppnishæfni íslenskrar ferðaþjónustu ofar í huga við ákvörðunartöku um efnahagsmál. 

„Svarið við því er í mínum huga skilyrðislaust já. Því samkeppnishæfnin er aflgjafi og vítamín allra viðskipta.

„Ísland verður aldrei ódýrt heim að sækja og ætti ekki að vera það. Að setja Ísland á útsölu samræmist ekki á nokkurn hátt markmiði atvinnugreinarinnar og stjórnvalda um að vera leiðandi í sjálfbærni, jafnt efnahagslegri, umhverfislegri og samfélagslegri,“ sagði Bjarnheiður. 

„Það samræmist ekki heldur þessu markmiði að Ísland og íslensk ferðaþjónusta neyðist reglulega til að verðleggja sig út af markaði vegna ósamkeppnishæfra rekstarskilyrða,“ bætti hún við. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert