„Tala svo hreint út að hreinna hefur ekki sést“

Gunnhildur Fríða, nemandi og aðgerðasinni, ávarpar gesti á ráðstefnunni í …
Gunnhildur Fríða, nemandi og aðgerðasinni, ávarpar gesti á ráðstefnunni í Hörpu. mbl.is/Árni Sæberg

Gunnhildur Fríða Hallgrímsdóttir, fyrrverandi formaður Sambands íslenskra framhaldsskólanema, segist himinlifandi yfir því að stjórnvöld hafi samþykkt samráð við ungt fólk. „En vita þau hvað þau eru búin að koma sér út í?“

Gunnhildur Fríða opnaði ráðstefnuna Breytingar í þágu barna með ávarpi í Norðurljósasal Hörpu í morgun.

Þar rifjaði hún upp þegar hún hélt lokaerindi á ráðstefnu um geðheilbrigði, um geðræn vandamál barna, fyrir nánast tómum sal. Sagðist hún hafa tekið sterkt til orða og sagt íslensku ríkisstjórnina vera að bregðast ungu fólki.

Hún sá ekki að Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, sat á fremsta bekk og var nokkuð brugðið þegar hún tók eftir honum. En í stað þess að hann hafi afsakað sig eða reynt að svara fyrir sig bauð hann henni á fund til að ræða málin almennilega.

„Vinnan sem ég hef fengið að sjá hefur komið mér virkilega á óvart. Það er komið fram við mig sem manneskju,“ sagði Gunnhildur Fríða og það væri nefnilega merkilegt hvað ungmenni vissu mikið um það hvernig væri að vera ungmenni.

„En vita þau hvað raunverulegt samráð er? Við erum ekki að fara að láta ykkur í friði. Við munum tala svo hreint út að hreinna hefur ekki sést.“

Sagði Gunnhildur Fríða þó að ef fullorðna fólkið kynni að taka gagnrýni og börnin fengju að tala hreint út yrði til samráð sem myndi bæta stjórnkerfið til góðs. „Þetta er fjárfesting sem mun skila sér margfalt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert