Dagsverkefnið vatt upp á sig

Stikla úr myndinni þar sem Benjamín Árni Daðason ræðir við …
Stikla úr myndinni þar sem Benjamín Árni Daðason ræðir við Leðurblökumanninn. Skjáskot/Youtube

Stuttmynd sem átti að vera dagsverkefni í tengslum við sögugerð í leikskóla varð að fjögurra mánaða verkefni hjá Daða Guðjónssyni og syni hans, Benjamín Árna. Daði segir að sumarið hafi verið mjög skemmtilegt en útkoman er stuttmyndin „Lego Benni Batman the Movie.“

„Ég gerði samning við Benjamín Árna um að ef hann myndi semja handrit þá myndu ég og stóra systir hans Árelía, sem er tíu ára, hjálpa honum að gera úr því kvikmynd,“ segir Daði.

Hann útskýrir að verkefnið hafi byrjað í mars þegar Benjamín var á leikskóla þar sem krakkar voru hvattir til að semja sögur. „Benjamín var ekki alveg að nenna því og þurfti smá ögrun. Við vorum að hugsa hvernig við gætum nálgast þetta þannig að hann hefði áhuga á að búa til sögu,“ segir Daði sem bjóst við ekki við löngu ferli:

„Þetta átti að vera dagsverkefni,“ segir Daði og hlær.

Berst við vonda kallinn Rassabossa

Hann segir að þetta hafi verið skemmtileg æfing fyrir Benjamín og mikill lærdómur. Sagan komi algjörlega frá honum en hún hafi orðið aðeins flóknari en Daði bjóst við. 

„Hann vildi vera legókall sem hittir risaeðlu og berst við vondan kall sem heitir Rassabossi. Þetta var orðið rosalega krefjandi en á sama tíma mjög skemmtilegt,“ segir Daði og bætir við að hann og börnin hafi lært helling um kvikmyndagerð. Til að mynda hvernig eigi að láta legókalla hreyfast með stoppmyndagerð, hljóðsetningu og fleira. 

„Ég er með smá bakgrunn í þessu en þurfti að læra helling nýtt til að fá þessa sýn,“ segir Daði þegar hann er spurður hvort hann hafi lært allt frá grunni. 

Eins og áður segir varð kvikmyndin flóknari en Daði gerði ráð fyrir í byrjun. Hann nefnir tónlistina við myndina í því samhengi en Árelía lék hana á píanó. 

„Benjamín varð svo spenntur og vildi búa til lag,“ segir Daði og úr varð að hann tók upp lokalag myndarinnar. „Ég ögraði sjálfum mér og rappaði með honum en ég hef ekki neina færni í því,“ segir Daði og heldur áfram:

„Maður lætur sig hafa það að gera sig að fífli. Maður má ekki alltaf vera hræddur við að gera eitthvað öðruvísi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert