Jakob röltir um þorpið og þiggur mat

Óvenjulegur gestur er farinn að venja komur sínar í verslun Samkaupa á Laugarvatni. Hrafn, sem hefur hlotið nafnið Jakob, kemur nánast daglega við í versluninni enda er búið að koma honum upp á lagið með að éta pylsur og annað góðgæti. 

Í myndskeiðinu sést Jakob meðal annars éta úr lófa Mikaels.

Reyndar kemur hann víðar við í þorpinu. Sést hefur til hans við Fontana og íþróttamiðstöðina en að öllum líkindum á fuglinn erfitt með flug. „Hann er bara hérna á röltinu. Ég hef aldrei séð hann fljúga,“ segir Mikael Þorsteinsson, starfsmaður verslunarinnar, sem hefur átt mikil samskipti við Jakob síðan að hann byrjaði að venja komur sínar í þangað fyrir rúmum mánuði. 

Hrafninn Jakob er kominn upp á lagið með að þiggja …
Hrafninn Jakob er kominn upp á lagið með að þiggja pylsur og góðgæti hjá þeim sem eiga leið um Laugarvatn. Ljósmynd/Aðsend

Jakob vekur gjarnan mikla athygli þar sem hann tekur sér stöðu á pallinum fyrir framan Samkaup og bíður eftir góðgæti í gogginn. „Um daginn stóðu hérna örugglega um 30 ferðamenn í kringum fuglinn með símana á lofti,“ segir Mikael og að þeir hafi tekið andköf þegar hann kallaði í fuglinn til að koma og fá sér bita. En Jakob lét ekki segja sér það tvisvar og stökk á boðið. „Þeir áttu ekki orð yfir því að villtur fugl skyldi svara kalli,“ rifjar hann upp og hlær við.

Svo vanur er Jakob mannfólkinu að hann leyfir því jafnvel að snerta sig og Mikael grínast með að fuglinn verði farinn að sitja á öxlinni á sér áður en langt um líður. Það sé þó kannski ekki skrýtið að hann kunni að meta mannfólkið þar sem Jakob virðist ekki passa í hópinn á hjá sinni tegund. Sést hefur til hans rölta af stað og hafa sig á brott þegar aðrir hrafnar nálgast.

Jakob er líklega ungi frá því í vor að sögn …
Jakob er líklega ungi frá því í vor að sögn Mikaels. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is