„Langur ferill“ að endurheimta milljónirnar 900

Lagerinn Iceland er móðurfélag Rúmfatalagersins.
Lagerinn Iceland er móðurfélag Rúmfatalagersins. mbl.is/Styrmir Kári

Ekki er vitað hver stóð að baki hátt í 900 milljóna króna svikum sem fyrirtækið Lagerinn Iceland varð fyrir. Þó hefur náðst að endurheimta næstum því alla fjárhæðina. Þetta segir Þórarinn Ingi Ólafsson, framkvæmdastjóri Lager Iceland. 

Er­lend­ir tölvuþrjót­ar sviku hátt í 900 millj­ón­ir út úr fyr­ir­tæk­inu Lag­er­num Ice­land á síðasta ári. Fyrirtækið er móðurfélag Rúmfatalagersins og Ilvu en það heldur einnig úti Jysk-verslunum í Eystrasaltslöndunum. 

Þórarinn var ekki framkvæmdastjóri þegar svikin áttu sér stað en þá var enginn framkvæmdastjóri starfandi hjá fyrirtækinu. 

„Ég hef meira komið að endurheimtunum. Við erum nú þegar nánast komin með alla fjárhæðina svo þetta hefur nánast endurheimst að fullu,“ segir Þórarinn. Hann getur af þeim sökum lítið tjáð sig um aðdraganda málsins. 

Samstarf við Holland og Kína

„Þetta er búinn að vera langur ferill, það gerist með samstarfi okkar starfsmanna, samstarfsfélaga okkar í Hollandi og lögreglunnar hér á Íslandi og í Kína og svo auðvitað lögmannsstofu í Kína líka,“ segir Þórarinn um endurheimt fjármunanna. Málið teygir anga sína til Asíu. 

Erlendir tölvuþrjótar standa á bak við svikin en Þórarinn veit ekki til þess að búið sé að finna hverjir þeir eru. „Lögreglan fer með rannsókn málsins og við komum þar hvergi nærri.“

Hann samsinnir því að svikin hafi áreiðanlega verið mikið högg fyrir fyrirtækið þegar þau áttu sér stað. 

Ekki náðist í þá sem áttu Lagerinn Iceland þegar svikin áttu sér stað.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert