Margir vilja kvikmynda fegurð jökla og sanda

Jökulsárlón á Breiðamerkursandi. Margir leggja leið sína í Vatnajökulsþjóðgarð allan …
Jökulsárlón á Breiðamerkursandi. Margir leggja leið sína í Vatnajökulsþjóðgarð allan ársins hring. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Fjöldi þeirra sem áhuga hafa á að kvikmynda á suðursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs hefur aukist verulega á síðustu árum. Flest leyfi sem gefin eru út til kvikmyndatöku eru vegna verkefna sem færri en tíu starfsmenn koma að.

Reglulega koma þó upp verkefni þar sem fjöldinn fer vel yfir það og á næstu vikum eru á dagskrá tvö stór kvikmyndaverkefni, þar sem fjöldi starfsmanna er vel á þriðja hundrað í hvoru verkefni. Í báðum tilvikum mun vera um framtíðartrylla að ræða, sem gerðir eru af erlendum stórfyrirtækjum.

Fram hefur komið að bandaríski leikarinn George Clooney sé væntanlegur til landsins í október vegna kvikmyndar sem hann hyggst leikstýra og leika aðalhlutverkið í. Myndin er framleidd af Netflix og byggist á bókinni Good Morning Midnight. Þá er leikarinn Chris Pratt sagður væntanlegur til landsins til að leika í kvikmyndinni Ghost Draft en tökur á kvikmyndinni munu fara fram hér á landi og í Atlanta í Bandaríkjunum.

Mikil fjölgun umsókna

Öll kvikmyndagerð, auglýsingagerð og önnur slík starfsemi, sem og notkun dróna innan Vatnajökulsþjóðgarðs, er háð leyfi viðkomandi þjóðgarðsvarðar. Á starfsmannafundi þjóðgarðsins nýlega var tekin ákvörðun um að lengja umsóknarfrest þessara leyfa. Á síðasta ári hefur fjöldi umsókna um leyfi margfaldast og vinna við afgreiðslu leyfanna aukist jafnhliða, segir á heimasíðu þjóðgarðsins. Með lengri umsóknarfresti gefst starfsfólki meira svigrúm til þess að svara umsóknum.

Lengi hefur verið vinsælt að taka upp efni í bíómyndir, sjónvarpsþætti og auglýsingar við jökla á svæðinu. Einstök fegurð og gott aðgengi að skriðjöklum eiga þar stóran þátt, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert