Skýrslan „gagnrýnislaust varnarrit“ fyrir EES-samninginn

Ólafur Ísleifsson, þingmaður Miðflokksins.
Ólafur Ísleifsson, þingmaður Miðflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við óskuðum eftir því í skýrslubeiðninni, sem samþykkt var á Alþingi á síðasta ári og síðan aftur í haust, að gerð yrði hlutlæg úttekt á kostum og göllum aðildar Íslands að EES-samningnum. En þessi samantekt kemur mér hins vegar því miður miklu fremur fyrir sjónir sem eins konar gagnrýnislaust varnarrit fyrir samstarfið í prédikunarstíl, rétt eins og EES-samningurinn sé í einhverri sérstakri hættu, sem ekki er vitað til að sé raunin.“

Þetta segir Ólafur Ísleifsson, þingmaður Miðflokksins, í samtali við mbl.is vegna skýrslu starfshóps um aðild Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES) sem kynnt var í gær. Skýrslan var unnin í kjölfar beiðni Alþingis á síðasta ári en Ólafur var fyrsti flutningsmaður beiðninnar. Starfshópinn skipuðu Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Kristrún Heimisdóttur, lögfræðingur og fyrrverandi varaþingmaður Samfylkingarinnar, og Bergþóra Halldórsdóttir lögfræðingur.

Spurning hvort beiðninni hafi verið fullnægt

Þannig komi til að mynda fram í aðfararorðum skýrslunnar, sem rituð eru af Birni sem formanni starfshópsins, að þrátt fyrir ósk Alþingis um úttekt á kostum og göllum aðildarinnar að EES-samningnum hafi hópurinn ákveðið að sinna ekki því verkefni heldur þess í stað leggja áherslu á réttindi, skyldur og ávinning af aðildinni. Þessi orð og fleira veki upp þá spurningu hvort skýrslubeiðni Alþingis hafi í raun verið fullnægt með þessari skýrslu.

Það veki einnig athygli að ekki skuli hafa verið lagt fyrir starfshópinn í erindisbréfi hans frá utanríkisráðuneytinu að fjalla um kosti og galla EES-aðildarinnar heldur hafi honum aðeins verið falið að fjalla um ávinning Íslands af aðildinni og síðan helstu úrlausnarefni sem stjórnvöld hafi tekist á við vegna hennar.

„Ég sakna þannig mun gagnrýnni umræðu um aðild Íslands að EES-samningnum í þessari skýrslu,“ segir Ólafur. Þetta sjáist til að mynda í umfjöllun skýrslunnar um þriðja orkupakka Evrópusambandsins og innflutning á fersku kjöti. Þau mál séu á meðal þeirra stærstu sem upp hafa komið í sögu samningsins og kalli á ítarlega greiningu frekar en ódýra afgreiðslu.

Starfshópur um EES-samstarfið. Frá vinstri: Bergþóra Halldórsdóttir, Kristrún Heimisdóttir og …
Starfshópur um EES-samstarfið. Frá vinstri: Bergþóra Halldórsdóttir, Kristrún Heimisdóttir og Björn Bjarnason, formaður hópsins. Ljósmynd/Utanríkisráðuneytið

Þannig hafi til dæmis afstaða stjórnvalda gagnvart þriðja orkupakkanum verið reifuð ítarlega en lítið sem ekkert fjallað um röksemdir þeirra sem gagnrýnt hefðu samþykkt hans. Hliðstæða sögu væri að segja um umræðuna um ferska kjötið þar sem mjög skorti á hlutlæga umfjöllun og greiningu í skýrslunni. Ólafur segir skautað fram hjá gagnrýni fræðimanna í þessum efnum á undanförnum misserum sem gefi ærið tilefni til umfjöllunar í skýrslu af þessu tagi.

Tilraun til þess að fegra EES-samninginn?

Þá væri athyglisvert að hlaupið væri einnig nokkuð hratt yfir hagsmuni Íslands af utanríkisviðskiptum, sem verið hafi forsendan fyrir aðildinni að EES-samningnum á sínum tíma, en þess í stað gert að því skóna að aðrir þættir skiptu jafnvel mun meira máli en beinir viðskiptahagsmunir eins og til dæmis frjáls för fólks og reikireglur um símanotkun.

Svo virtist sem reynt væri þannig að tína sem flest til í því skyni að fegra EES-samninginn, sem auðvitað væri um margt ágætur, á meðan ýmis gagnrýni fræðimanna og á stjórnmálavettvangi væri sveipuð þagnarhjúpi. Þetta ætti til dæmis við um það þegar skýrt ákvæði samningsins um neitunarvald væri sagt haldlaust ef á reyndi jafnvel þótt mikilvægir þjóðarhagsmunir lægju að baki. Veikleikar sem fram hefðu komið varðandi tveggja stoða kerfi EES-samningsins fengju sömuleiðis ekki þá umfjöllun sem vert væri að mati Ólafs.

Tilfinnanlegur skortur á tilvísunum í heimildir

„Ég tek síðan eftir því að í skýrslunni er tilfinnanlega lítið um tilvísanir í heimildir,“ segir Ólafur enn fremur. Enn fremur sé ekki eiginleg heimildaskrá vegna efnis skýrslunnar heldur aðeins sjálfstæð skrá yfir heimildir sem almennt tengdist aðild Íslands að EES-samningnum í samræmi við ósk utanríkisráðuneytisins í erindisbréfi starfshópsins um að slíkt yfirlit yrði tekið saman.

Mikilvægar heimildir vanti, þar á meðal rit Stefáns Más Stefánssonar, prófessors í lögfræði, um landbúnaðarlöggjöf Evrópusambandsins og EES og efnismikla tímaritsgrein Stefáns Más og Margrétar Einarsdóttur frá 2018 um valdmörk og valdheimildir stofnana sambandsins og EES.

„Fyrir vikið er erfitt að sannreyna margt af því sem fram kemur í skýrslunni með því að kanna hvaða heimildir séu fyrir því og í mörgum tilfellum alls ekki,“ segir Ólafur sem áður starfaði meðal annars sem lektor við Háskólann í Reykjavík. Sama eigi við um lista yfir viðmælendur starfshópsins. Ekki komi fram í skýrslunni hvað sé haft eftir einstökum viðmælendum.

Sem dæmi um áróðurskeim í skýrslunni að mati Ólafs nefnir hann fullyrðingu um að án EES-samningsins yrði hætta á einangrun, stöðnun og afturför í þjóðlífinu öllu. „Hvað er þetta?“ spyr hann og bætir við að þarna hefði til að mynda verið þörf á að byggja á skýrum heimildum sem þætti sjálfsagt á öllum skólastigum þegar svo sverar fullyrðingar væru hafðar uppi.

mbl.is