Öllum brottförum aflýst

Öllum landgöngubrúm hefur verið lokað.
Öllum landgöngubrúm hefur verið lokað. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Öllum brottförum frá Keflavíkurflugvelli hefur verið aflýst það sem eftir er dags. Síðasta vél fór til Kaupmannahafnar kl. 14:32.

Samkvæmt Guðjóni Helgasyni, upplýsingafulltrúa Isavia, er vindhraði orðinn svo mikill á Keflavíkurflugvelli að allar landgöngubrýr hafa verið teknar úr notkun.

Samkvæmt veðurspá á enn eftir að hvessa þegar líður á kvöldið.

Búast má við töfum við affermingu

Flugvélar geta enn lent á Keflavíkurflugvelli og að sögn Ásdísar Ýrar Pétursdóttur, upplýsingafulltrúa Icelandair, má búast við töfum við affermingu vélanna, en til þess verða notaðir stigabílar þar sem landgöngubrýr hafa eins og áður segir verið teknar úr notkun.

Þá segir Ásdís Ýr að starfsfólk flugfélagsins vinni nú hörðum höndum að því að finna farþegum sínum ný flug og bóka hótel fyrir þá sem áttu héðan framhaldsflug í dag.

Uppfært kl. 18:30: Búið er að aflýsa öllum flugferðum, en þegar fréttin var skrifuð voru þrjú síðustu flug dagsins enn á áætlun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert