Tvö þök gerðu sig líkleg til að fjúka

mbl.is/Eggert

Þök létu illa í óveðrinu í dag en annars hefur dagurinn verið merkilega rólegur hjá björgunarsveitunum miðað við veður og vinda, að sögn Davíðs Más Bjarnasonar, upplýsingafulltrúa Landsbjargar. 

„Á sjötta tímanum kom aðstoðarbeiðni úr Reykjanesbæ þar sem var einhver þakkantur sem var byrjaður að fjúka. Björgunarsveitin fór á vettvang núna fyrir stuttu síðan, það var í raun og veru ekki mikið hægt að gera. Það sem gat fokið var farið og ástandið þarna var orðið nokkuð stöðugt,“ segir Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar. 

Þakkanturinn var á íbúðarhúsi og losnaði einhver klæðning af húsinu. 

Þungt farg bjargaði þaki

Annað útkall af svipuðum toga barst í morgun. 

„Það barst eitt útkall í morgun í Grindavík. Þar var þak á hesthúsi sem gerði sig líklegt til þess að fjúka en það fauk ekki. Með aðstoð fyrirtækja í Grindavík fóru menn í það verkefni að setja þungt farg ofan á þakið til þess að forða því frá að fjúka mögulega af,“ segir Davíð.

Hann bendir fólki  á að taka tillit til veðursins. „Við ítrekum það að fólk hafi huga við veðurspána þegar það hugar að ferðalögum og einnig að það hafi augu með lausamunum í kringum sig eins og blessuðum garðhúsgögnunum og það gæti verið síðasti séns til að forða þeim inn,“ segir Davíð.

„Við fundum fyrir því áðan að það var greinilega farið að bæta í núna seinni partinn en vonandi gengur þetta hratt yfir og verður ekki til mikilla vandræða.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert