Vélin vaggar jafnvel meira á jörðu niðri

Ekki var hægt að nota landgöngubrýr vegna veðurofsans.
Ekki var hægt að nota landgöngubrýr vegna veðurofsans. mbl.is/Eggert

Farþegar í flugi frá Kaupmannahöfn hafa setið úti í vél á Keflavíkurflugvelli í tæpar þrjár klukkustundir vegna veðurofsa. Nú á að draga vélina að flugstöðinni. 

Greint var frá því fyrr í dag að vindhraði væri orðinn svo mik­ill á Kefla­vík­ur­flug­velli að all­ar land­göngu­brýr hefðu verið tekn­ar úr notk­un.

„Maður fór að vona að ástandið væri að lagast þegar við sáum flugvél dregna að flugstöðinni en verðum bara að bíða uns röðin kemur að okkur,“ segir Þór Jónsson, einn af farþegum vélarinnar. 

„Það var lítils háttar ókyrrð á leiðinni en ég held svei mér að vélin vaggi meira hér á jörðu niðri. Allt er samt í besta lagi um borð og ég dáist að dugnaði barnanna. Áhöfnin hugsar líka vel um okkur,“ segir Þór. 

Farþegarnir æðrulausir

„Vélin gengur til í verstu hviðunum, en ástandið var verra fyrst - nema ég hafi bara vanist því,“ segir Þór.

Farþegar vélarinnar eru þolinmóðir, að sögn Þórs. „Þeir taka þessu með fullkomnu æðruleysi. Margir eru í símanum að fylgjast með fréttum, drepa tímann með einhverri afþreyingu eða endurskipuleggja ferðalagið. Ung kona í næstu sætaröð var að afpanta borð á veitingastað í bænum og lítil stúlka við hliðina á mér er að spila á spil.“

Klukkan 18.41 bárust þær upplýsingar að draga ætti vélina í átt að flugstöðinni. Aðgerðin er talin taka um 25 mínútur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert