Engu líkara en dómsdagur sé í nánd

Magnús Jónsson veðurfræðingur og fyrrverandi veðurstofustjóri.
Magnús Jónsson veðurfræðingur og fyrrverandi veðurstofustjóri. Guðmundur Rúnar Guðmundsson

Hættumeta þarf áhrif hlýnunar á yfirvegaðan hátt og án hræðsluáróðurs. Engar líkur er á því að hægt sé að minnka styrk koltvísýrings í andrúmslofti á meðan mannkyninu fjölgar jafn mikið og raun ber vitni og fyllsta ástæða er til að gefa öðrum þáttum meiri gaum en loftlagsvánni þegar kemur að umhverfismálum. Þetta er mat Magnúsar Jónssonar veðurfræðings og fyrrverandi veðurstofustjóra.

Í pistli sínum á Kjarnanum  segir hann að ekki líði sá dagur að ekki sé rætt um að hlýnun jarðar sé álíka ógn við mann­kynið og kjarn­orku­stríð hefði orðið þegar kalda stríðið stóð sem hæst. „Talað er um hækkun á hita jarð­ar­innar sem „mestu ógn mann­kyns­ins“, „ham­fara­hlýn­un“ og „stór­fellda lofts­lags­vá“ og nú nýlega hefur „neyð­ar­á­standi“ verið lýst yfir í nokkrum lönd­um, jafn­vel í Evr­ópu vegna henn­ar. Hlýnun sem lík­lega er orðin um 1°C á síð­ustu 150 árum þar sem lang­tíma­með­al­hiti jarð­ar­innar hefur hækkað um 0.1°C á hverjum 15 árum að jafn­að­i,“ skrifar Magnús.

Kyrja hræðsluboðskap

Hann segist hafa orðið var við vaxandi hræðslu hjá börnum og ungu fólki vegna þessarar yfirvofandi ógnar við tilvist okkar og líkir henni við þá hræðslu sem hann sjálfur bar í brjósti fyrir um 60 árum vegna kjarnorkuvárinnar. „Fjöl­miðl­ar, stjórn­mála­menn og margir vís­inda­menn og emb­ætt­is­menn kyrja þennan hræðslu­boð­skap sem mér finnst engan veg­inn vera til­efni til að blása upp í þær hæðir sem gert er. Er engu lík­ara en að rétt einu sinni sé dóms­dagur að renna upp,“ skrifar Magnús.

Hans mat er að mesta ógn mannkynsins sé gríðarleg fjölgun þess og afleiðingar þess sem eru ofnýting stórs hluta auðlinda jarðarinnar, jafnt á sjó sem á landi. „Árið 1900 voru um 1500 millj­ónir manna á jörð­inni en nú er mann­fjöld­inn tæp­lega 8000 millj­ónir eða meira en fimm sinnum meiri. Meira og minna öll umhverfi­vanda­mál heims­ins, þar með talin hlýnun jarð­ar­innar er afleið­ing óheyri­legrar mann­fjölg­unar og krafna um bætt lífs­kjör. Loft­meng­un, jarð­vegs­meng­un, jarð­vegseyð­ing, plast­mengun og skortur á vatni eru víða ógnir við líf­verur bæði á landi og í sjó.“

Ofnýttar auðlindir

Hann skrifar að þetta standi í beinu sam­hengi við mann­fjölda jarð­ar­inn­ar. „Talið er að meira en 60% af öllum auð­lindum lands og sjávar séu ann­að­hvort ofnýttar eða full­nýttar og er ótrú­lega litlum fjár­munum eytt til þess að bæta þar úr. Vax­andi rányrkja sem m.a. má rekja til mann­fjölg­unar hefur einnig átt stóran þátt í að auka styrk gróð­ur­húsa­loft­teg­unda í and­rúms­lofti. Það kom því nokkuð á óvart að í sam­komu­lagi ríkja heims sem varð um lofts­lags­mál í París árið 2015 skyldi ekki vikið með afger­andi hætti að mann­fjölda­vand­anum sem við er að glíma nú og um fyr­ir­sjá­an­lega fram­tíð.“

Magnús skrifar að þær hitabylgjur sem gengið hafi yfir Evrópu, Ameríku og fleiri svæði jarðar á síðustu árum séu trúlega meiri en nokkru sinni síðan almennar hitamælingar hófust fyrir um 200 árum. Manntjón hafi verið blásið upp, en til samanburðar nefnir Magnús að fleiri hafi látist í kuldaköstum. 

Hefur ekki misst svefn

Þótt ég styðji við­leitni okkar Íslend­inga sem og ann­arra við að draga úr losun gróð­ur­hús­loft­teg­unda finnst mér mun meiri ástæða til að gefa öðrum þáttum í mann­lífi jarð­ar­innar meiri gaum en lofts­lags­vánni,“ skrifar Magnús og bætir við að hingað til hafi hann ekki misst svefn eða haft áhyggjur af hækkun hita á jörðinni enda telji hann ekki að neitt neyðarástand sé að ræða.

Hér má lesa pistil Magnúsar 

mbl.is

Bloggað um fréttina