Sextán ára gömul í sínu fyrsta stóra hlutverki

Nanna Kristín Magnúsdóttir með Regínu Sveinsdóttur sem leikur dóttur hennar …
Nanna Kristín Magnúsdóttir með Regínu Sveinsdóttur sem leikur dóttur hennar í þáttunum Pabbahelgar. Ljósmynd/Freyja Gylfadóttir

„Þetta var frábært tækifæri og rosalega skemmtilegt að vera hluti af þessu. Ég er svo stolt af öllum í teyminu af því þetta var mjög mikið álag en það voru allir alltaf brosandi, glaðir og góðir við mann,“ segir hin 16 ára gamla leikkona Regína Sveinsdóttir í samtali við mbl.is.

Regína fer með hlutverk í sjónvarpsþáttunum Pabbahelgar sem hefja göngu sína á RÚV í kvöld. Þættirnir fjalla um 38 ára gamla þriggja barna móður sem kemst að því að eiginmaður hennar er henni ótrúr og vandamálunum sem koma upp í kjölfarið.

Fjölskyldan heldur upp á afmæli fjölskylduföðursins. Skjáskot úr þáttunum.
Fjölskyldan heldur upp á afmæli fjölskylduföðursins. Skjáskot úr þáttunum. Ljósmynd/Aðsend

Gaman að prófa leika fyrir framan myndavél

Nanna Kristín Magnúsdóttir framleiðir, skrifar, leikstýrir og leikur aðalhlutverkið í þáttunum og Regína leikur elstu dóttur hennar, hana Þórkötlu.

Þrátt fyrir ungan aldur er Regína enginn byrjandi í leiklist en hún hefur æft hana í söng- og leiklistarskólanum Sönglist síðan hún var sjö ára gömul og útskrifaðist nýlega þaðan.

Þá hefur hún þrisvar tekið þátt í jólasýningu Skoppu og Skrítlu en hún segir að hlutverkið í Pabbahelgum sé af annarri stærðargráðu.

„Mér fannst alveg ótrúlega gaman að fá að vera fyrir framan myndavél, því hingað til hef ég bara leikið á sviði. Þetta er nefnilega tvennt ólíkt því þegar maður er á sviði þarf maður að leika miklu stærra og ýktara en fyrir framan myndavél þarf maður að passa sig á því,“ útskýrir hún fyrir blaðamanni.

Áhugavert að upplifa lífið bakvið tjöldin

Regína segist lengi hafa haft áhuga á því að koma fram en að leiklistaráhuginn hafi verið að aukast með árunum. Henni fannst mjög áhugavert að upplifa ferlið í kringum framleiðslu sjónvarpsþátta.

„Það var svo áhugavert hvernig þetta fer allt fram og að sjá hvað það fer mikil vinna í að búa til svona þætti. Síðan var mjög gaman að vera með fólkinu sem kom að framleiðslu þáttanna,“ segir hún.

Regína er ekki með fleiri stór leiklistarverkefni á prjónunum eins og er en hún situr alls ekki aðgerðalaus því hún hóf nýlega nám í Menntaskólanum við Hamrahlíð auk þess sem hún kennir dans í Sönglist.

Auðmjúk og stútfull af hæfileikum

Það er því ljóst að hún á framtíðina fyrir sér enda getur hún leikið, sungið og dansað auk þess að vera komin með fína reynslu þrátt fyrir ungan aldur.

„Það væri æðislegt að taka þátt í einhverjum góðum söngleik,“ segir hún spurð um draumahlutverk til að taka að sér í framtíðinni.

„Mig langar að koma því á framfæri hvað ég er stolt af Nönnu. Mér finnst hún svo flott að gera þetta allt sjálf og fyrir að vera með allt á hreinu. Svo er hún alltaf svo góð og yndisleg,“ segir Regína auðmjúk að lokum og það skín í gegn að hún er með hausinn rétt skrúfaðann á.

Regína ásamt foreldrum sínum þeim Signýju Gunnarsdóttur og Sveini Rögnvaldssyni.
Regína ásamt foreldrum sínum þeim Signýju Gunnarsdóttur og Sveini Rögnvaldssyni. Ljósmynd/Freyja Gylfadóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert