Samstarf um sérþjónustu í Eyjafirði

Unnar Eiríksson aðstoðarskólastjóri Þelamerkurskóla í útiskóla De Wijnberg.
Unnar Eiríksson aðstoðarskólastjóri Þelamerkurskóla í útiskóla De Wijnberg.

Gerum gott betra er starfsþróunarverkefni sem þrír grunnskólar við Eyjafjörð hafa unnið að síðan haustið 2018. Meginmarkmið verkefnisins er að bæta þjónustu við nemendur sem þurfa mikla námsaðlögun. 

Dalvíkurskóli, Naustaskóli og Þelamerkurskóli unnu saman að verkefninu Gerum gott betra á síðasta skólaári en verkefnið hlaut styrk úr Sprotasjóði.

Ingileif Ástvaldsdóttir, ráðgjafi í skólaþróun og fyrrverandi skólastjóri Þelamerkurskóla, er ein þeirra sem kom að verkefninu en kveikjan að því var námsferð hennar, aðstoðarskólastjóra og iðjuþjálfa Þelamerkurskóla í sérskólann De Wijenberg í Venlo í Hollandi í gegnum Erasmus+ verkefni árið 2017.

Að sögn Ingileifar eru Hollendingar með annað kerfi þegar kemur að skólamálum en Íslendingar því þar er ekki skóli án aðgreiningar við lýði þrátt fyrir menntun fyrir alla, heldur eru reknir almennir grunnskólar og sérskólar líkt og var hér fyrir 20-30 árum. 

Til þess að bæta eigin vinnubrögð í að aðlaga námsefnið að þessum nemendum völdu stuðningsteymin í þessum þremur skólum við Eyjafjörð hvert einn nemanda til þátttöku í starfsþróunarverkefninu.

Stuðningsteymin hittust reglulega síðasta vetur til að bera saman bækur sínar og kynna hvert fyrir öðru það sem þau voru að vinna að. „Þannig að skólarnir þrír lærðu hver af öðrum og markmiðið var að bæta þjónustu við nemendur og fjölskyldur þeirra barna sem þurfa mikla námsaðlögun. Til að fyrirbyggja að þau fari af annars stigs þjónustu yfir á þriðja stigs og halda vel utan um þau,“ segir Ingileif. 

Hún segir að á sama tíma hafi verið ákveðið að innleiða sérstakt mat á þörfum og stöðu barnanna en stundum skorti á skýrar áætlanir, markmið og mat þegar kemur að stuðningi í skólakerfinu. Við De Wijenberg-skólann er lögð áhersla á að meta stöðuna reglulega, ekki bara hvað skólinn gerir heldur einnig nemandinn og fjölskylda hans. 

Aukaafurðin var að koma á lærdómi milli þessara þriggja skóla því stuðningsteymin eru lítil innan fámennra skóla og þau fá með þessu stuðning og sterkara bakland, segir Ingileif. 

Á miðvikudag verður haldið málþing á Akureyri þar sem Gerum gott betra-verkefnið verður kynnt af stuðningsteymum skólanna þriggja auk þess sem aðalfyrirlesarar málþingsins koma frá De Wijnberg-skólanum. 

Sjá nánar hér

Í De Wijnberg er notast við fjölfaglega og heildstæða nálgun í námi og allri þjónustu við nemendur og fjölskyldur þeirra. 

De Wijnberg-skólinn er hluti af greiningar- og meðferðarmiðstöð sem eru rekin af samtökum sem heita Mutsaersstichting og sérhæfa sig í meðferð, greiningu og menntun ungmenna sem ekki fylgja venjulegri námsframvindu eða búa við erfiðar aðstæður.

Skólinn er sérskóli fyrir 4-18 ára nemendur með tilfinninga- og hegðunarvanda og með skerta færni af einhverju tagi. Í honum eru að jafnaði 200-250 nemendur. Nemendur eru misjafnlega mikið og lengi í skólanum, allt eftir því hvernig þeim vegnar í náminu og öðru starfi við skólann og hvernig aðstæður þeirra eru að öðru leyti. Flestir nemenda koma í skólann með skólabílum og nokkrir búa á staðnum. Þar sem skólinn er hluti af greiningar- og meðferðarúrræðum fyrir skjólstæðinga eru þeir mismikið í skólanum og/eða í viðtölum eða annarri meðferðarvinnu. Það miðast við stöðu hvers og eins hverju sinni.

Samtökin Mutsaersstichting reka miðstöðvar fyrir börn og ungmenni á fimm stöðum í Hollandi og sú sem er í Venlo er sú stærsta.

„Á málþinginu eru í raun þrír skólar að miðla til annarra því sem þeir hafa innleitt í kjölfar þessa starfsþróunarverkefnis. Þetta er viðkvæmur hópur sem allir eru að reyna að gera sitt besta til að sinna. Á sama tíma er þetta dýr málaflokkur og menn eru orðnir uggandi yfir því hvað greiningar og stuðningur er orðinn mikill. Þetta er því viðleitni til að gera gott enn betra, að bæta þjónustuna enn betur með þeim leiðum sem við höfum,“ segir Ingileif.

Verk eftir yngstu nemendur De Wijenberg-skólans.
Verk eftir yngstu nemendur De Wijenberg-skólans.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert