Vill endurskoða samskipti við Bandaríkin

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stefna Bandaríkjanna í utanríkismálum er ógn við lýðræðið að mati Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, formanns Viðreisnar. Þetta sagði hún á Alþingi í dag þar sem hún gerði ákvörðun Bandaríkjastjórnar um að draga herlið sitt frá norðurhluta Sýrlands að umtalsefni og kallaði eftir því að þjóðaröryggisráð yrði kallað saman til þess að taka málið upp og fara enn fremur yfir öll samskipti íslenskra stjórnvalda við Bandaríkin.

Tilefni þess að Þorgerður Katrín tók málið upp á Alþingi voru skrif Friðjóns R. Friðjónssonar, almannatengils og fyrrverandi aðstoðarmanns Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra, á Facebook-síðu hans í gær en Þorgerður sagði hann „einn af helstu áhrifamönnum innan Sjálfstæðisflokksins“.

Samstarfi við Bandaríkin á norðurslóðum sjálfhætt

Friðjón sagði meðal annars í færslu sinni: „Ef ákvörðun Trump í Kúrdistan er vísbending um hvernig þessi Bandaríkjastjórn kemur fram við bandamenn er best að sleppa samstarfi við þá ríkisstjórn með öllu. Samstarfi á norðurslóðum ætti þannig að vera sjálfhætt.“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Hari

Þorgerður sagði enn fremur að hún teldi utanríkisstefnu Bandaríkjanna „ógn við farsælt vestrænt samstarf sem hefur verið á umliðnum árum og áratugum.“ Þá teldir hún stefnu Bandaríkjamanna einnig „ákveðna ógn, verulega ógn, við Ísland og okkur sem erum á norðurslóðum hvernig umhverfisstefnu Bandaríkjanna er háttað.“

Uppbygging á varnarsvæðinu hluti af varnarsamningnum

Beindi Þorgerður orðum sínum til Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra sem lýst miklum áhyggjum vegna ákvörðunar Bandaríkjastjórnar sem haft gæti mikil áhrif á hag almennra borgara á svæðinu. Ákvörðun Tyrkja um að hefja hernað á svæðinu virtist ekki hafa verið rædd á vettvangi Atlantshafsbandalagsins eins og eðlilegt væri að ræða hana og hafa komið mörgum bandalagsþjóðum í opna skjöldu.

Þorgerður Katrín spurði hvort forsætisráðherra bæri fullt og óskorað traust til Bandaríkjanna til að standa við skuldbindingar sínar samkvæmt varnarsamningi landanna. Katrín sagðist alltaf tilbúin að ræða samninginn og full ástæða væri til þess að ræða þau mál að hennar mati. Sú uppbygging sem ætti sér stað á varnarsvæðinu byggði á viðauka við hann. Hins vegar væri varnarsamningurinn hluti af þjóðaröryggisstefnu Íslands og að henni óbreyttri stæði hún sem forsætisráðherra á bak við það.

Friðjón R. Friðjónsson almannatengill.
Friðjón R. Friðjónsson almannatengill. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert