Yfirdeild MDE tekur Al-Thani málið fyrir á morgun

Lögmennirnir Gestur Jónsson (t.v.) og Ragnar Hall.
Lögmennirnir Gestur Jónsson (t.v.) og Ragnar Hall. mbl.is/Ómar Óskarsson

Málflutningur í máli lögmannanna Gests Jónsonar og Ragnars Hall gegn íslenska ríkinu fer fram á morgun fyrir yfirdeild Mannréttindadómstóls Evrópu í Strassborg. Að sögn Gests er þetta fyrsta íslenska málið sem tekið hefur verið fyrir í yfirdeildinni.

Áður hafði Mannréttindadómstóllinn hafnað því að íslenska ríkið hefði brotið á þeim Gesti og Ragnari þegar þeim var gert að greiða eina milljón hvorum í sekt fyrir að segja sig frá málsvörn í Al Thani-málinu svokallaða árið 2013.

Lögmennirnir tveir voru skipaðir verjendur Sigurðar Einarssonar og Ólafs Ólafssonar í málinu. Áður en kom að aðalmeðferð þess rituðu þeir bréf til héraðsdómara þar sem þeir lýstu því yfir að þeir myndu ekki sinna frekari verj­enda­störf­um í mál­inu þar sem þeir teldu að brotið hefði verið gegn rétti skjól­stæðinga þeirra til rétt­látr­ar málsmeðferðar. Óskuðu þeir eft­ir því að vera þegar í stað leyst­ir und­an störf­un­um.

Héraðsdóm­ari synjaði þessari beiðni. Þegar aðalmeðferð átti að fara fram mættu þeir ekki til þinghalds, skjólstæðingunum voru þá skipaðir nýir verjendur, aðalmeðferðinni frestað og Gestur og Ragnar dæmdir til að greiða eina milljón hvor í sekt.

Þeir áfrýjuðu því til Hæstaréttar, sem staðfesti ákvörðun héraðsdóms og Mannréttindadómstóll Evrópu hafnaði því síðan í október í fyrra að íslenska ríkið hefði brotið á þeim. Gestur og Ragnar voru ekki sáttir við þá niðurstöðu og fóru þess því á leit við yfirdeildina að hún tæki málið fyrir.

Leiðrétting: Inngangsorðum og fyrirsögn fréttarinnar hefur verið breytt. Áður sagði að úrskurður yfirdeildarinnar myndi liggja fyrir á morgun, en það er ekki rétt. Málflutningur í málinu fer fram á morgun og niðurstöðu er að vænta eftir 6-12 mánuði.

mbl.is