Fjöldi ríkisjarða seldur á liðnum árum

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/​Hari

Tæplega áttatíu ríkisjarðir, lóðir og lönd voru seld á árunum 2000-2019. Inni í þeirri tölu eru hins vegar ekki upplýsingar um allar sölur á ríkisjörðum til ábúenda í samræmi við kaupheimildir ábúenda samkvæmt jarðalögum.

Þetta er á meðal þess sem kemur fram í svari Bjarna Benediktssonar fjármála- og efnahagsráðherra við skriflegri fyrirspurn frá Önnu Kolbrúnu Árnadóttur, þingmanni Miðflokksins. Samkvæmt svarinu krefst samantekt á sölum til ábúenda á tímabilinu nánari úrvinnslu á vegum ráðuneytisins og Ríkiseigna. 

Spurt var hvaða ríkisjarðir hafi verið seldar, hverjum og hvert söluverðið hefði verið. Fram kemur í svari ráðherrans að umræddar ríkisjarðir, lóðir og lönd hafi verið seld til bæði einstaklinga, félaga, fyrirtækja og sveitarfélaga.

Hæst verð var greitt af Kópavogsbæ fyrir hluti Fífu­hvamms árið 2002 eða 700 milljónir króna og næst kemur sala á Vífilstaðalandi til Garðabæjar árið 2017 fyrir rúmar 558 milljónir. Þá var Neðra nikk­elsvæði á Reykjanesi selt til Húsagerðarinnar hf. 2004 fyrir 150 milljónir.

Svarið í heild

mbl.is