Slökkviliðs þurfti við í Viðey

Fjögurra manna áhöfn dælubíls fór með vatnssugur og önnur verkfæri …
Fjögurra manna áhöfn dælubíls fór með vatnssugur og önnur verkfæri út í Viðey. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins var kallað út klukkan átta í kvöld vegna vatnsleka í Viðeyjarkirkju. Þar hafði vatnsslökkvikerfi farið í gang og var 1 til 2 sentimetra vatn yfir gólfum þegar slökkvilið mætti á staðinn.

Segja má að það hafi verið lán í óláni að kveikt var á Friðarsúlunni í kvöld og því tíðar bátsferðir út í Viðey. „Þegar við komum niður á bryggju beið okkar bátur sem skutlaði okkur yfir á örskotsstundu,“ segir Árni Oddsson hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu í samtali við mbl.is. 

Árni áætlar að tjónið á kirkjunni sé minni háttar.
Árni áætlar að tjónið á kirkjunni sé minni háttar. mblis/Ómar Óskarsson

Fjögurra manna áhöfn dælubíls fór með vatnssugur og önnur verkfæri út í Viðey og var aðgerðum lokið á um hálftíma.

Árni segir svo að þegar þeir hafi verið á förum hafi komið fólk með þurrktæki og ætlar hann því að tjónið verði minni háttar.

mbl.is