Stefna Reykjavíkurborg vegna innviðagjaldanna

Verktakafyrirtækið Sérverk stendur formlega að stefnunni, en að málinu stendur …
Verktakafyrirtækið Sérverk stendur formlega að stefnunni, en að málinu stendur hópur stórra verktakafyrirtækja innan vébanda SI. mbl.is/Kristinn Magnússon

Verktakafyrirtæki, í samstarfi við Samtök iðnaðarins (SI), hefur stefnt Reykjavíkurborg vegna meintra ólögmætra innviðagjalda sem innheimt hafa verið á undanförnum árum í tengslum við uppbyggingu á húsnæðismarkaði. Greint var frá þessu í Fréttablaðinu í dag.

Í frétt blaðsins er haft eftir Sigurði Hannessyni, framkvæmdastjóra SI, að óásættanlegt sé að lagaleg óvissa sé til staðar um lögmæti innviðagjaldanna. Rætt hefur verið um það áður, en í upphafi árs 2017 vann lögmannsstofan LEX minnisblað um innviðagjöldin fyrir SI og kom þar fram að færa mætti „nokkuð sterk rök“ fyrir því að gjöldin stæðust ekki lög.

Í niðurstöðu LEX sagði að innviðagjöldin væru, „a.m.k. að stórum hluta, almennt tekjuöflunartæki Reykjavíkurborgar til viðbótar við þá tekjustofna sem borginni standa nú þegar til boða á grundvelli laga. Þótt hluti innviðagjaldsins geti mögulega verið lögmætur, þ.e. í þeim tilvikum þar sem fjármögnuð eru verkefni sem hvorki heyra til lögbundinna verkefna sveitarfélagsins né til verkefna sem eru þegar fjármögnuð með mörkuðum tekjustofnum, virðist gjaldið vera innheimt í einu lagi og án þess að fjárhæðin sé sundurliðuð til tiltekinna verkefna.

Að mati LEX má færa nokkuð sterk rök að því að gjaldtakan sé ólögmæt. Við slíkar aðstæður gætu lóðarhafar krafist endurgreiðslu innviðagjaldsins á grundvelli laga nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda.“

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins. mbl.is/Eggert

Sigurður segir við Fréttablaðið að hagsmunirnir séu miklir, enda hafi gjaldið áhrif á byggingarkostnað og hækki mögulega söluverð nýbygginga.

Fram kemur í frétt blaðsins að það sé verktakafyrirtækið Sérverk sem formlega standi fyrir stefnunni, en að málinu standi hópur stórra verktafyrirtækja innan vébanda SI.

mbl.is