Verktakar vilji velta umsömdum kostnaði á borgarbúa

Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, borgarfulltrúi Pírata og formaður skipulags- og samgönguráðs …
Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, borgarfulltrúi Pírata og formaður skipulags- og samgönguráðs borgarinnar, segir í samtali við mbl.is að það sé alveg skýrt að þeir samningar sem gerðir hafa verið við verktaka um þátttöku þeirra í kostnaði við uppbyggingu standist lög. mbl.is/Eggert

Innviðagjöldin svokölluðu sem Reykjavíkurborg hefur innheimt síðustu misseri í tengslum við húsnæðisuppbyggingu á vissum stöðum í borginni standast ekki stjórnarskrá að mati Einars Huga Bjarnasonar, lögmanns verktakafyrirtækisins Sérverk, sem hefur stefnt borginni í prófmáli um gildi gjaldanna.

Þessu eru borgaryfirvöld alfarið ósammála. Fleiri verktakafyrirtæki innan raða Samtaka iðnaðarins fylgjast með málinu.

Sigurborg Ósk Haraldsdóttir
Sigurborg Ósk Haraldsdóttir mbl.is/Hari

Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, borgarfulltrúi Pírata og formaður skipulags- og samgönguráðs borgarinnar, segir í samtali við mbl.is að það sé alveg skýrt að þeir samningar sem gerðir hafa verið við verktaka um þátttöku þeirra í kostnaði við uppbyggingu standist lög.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri tekur í sama streng í samtali við Fréttablaðið og segir að honum þyki málið bera keim af „vanhugsaðri verktakagræðgi.“

„Það er alveg skýrt. Þetta eru einkaréttarlegir samningar við lóðarhafa og fela í sér samstarf um uppbyggingu í borginni á þéttingarreitum. Í þessu tiltekna dæmi kaupa verktakar þennan byggingarrétt með skýrum kröfum um þátttöku í innviðauppbyggingunni. Þessi niðurstaða náðist í samningum og það er að mínu mati ekki hægt að koma eftir á og ætla að hirða allan gróðann af uppbyggingunni, hlaupa frá samningi um innviðakostnað og senda síðan reikninginn á borgarbúa. Það er algjörlega ótækt að mínu mati og hér erum við að hugsa ávalt um hagsmuni borgarbúa. Það er okkar hlutverk,“ segir Sigurborg.

Gjaldtaka megi ekki vera fyrir lögbundin verkefni

Einar segir í samtali við blaðamann að meginreglan um tekjuöflun sveitarfélaga sé sú að tekjuöflun sveitarfélaga verði að byggjast á fullnægjandi lagaheimild. Hann segir að einkaréttarlegir samningar eins og þeir sem innviðagjöldin byggjast á séu undantekning frá þessari meginreglu.

Einar Hugi Bjarnason lögmaður
Einar Hugi Bjarnason lögmaður

„Það hefur verið mikið skrifað um þetta á sviði lögfræði og megin niðurstöðurnar eru þær að gjaldtaka á þessum einkaréttarlega grunni geti einungis komið til greina í undantekningartilvikum og alls ekki þegar verið er að fjármagna lögbundin verkefni sveitarfélaganna. Þetta er kjarni málsins að mínu viti, þessu innviðagjaldi er ætlað að standa undir lögbundnum verkefnum borgarinnar, þ.e.a.s. breytingu á deiliskipulagi, uppbyggingu á götum og lögnum og skólum og öðrum innviðum, og að mínum dómi stenst ekki að ætla að fjármagna slík skyldubundin verkefni með einkaréttarlegum samningum, sér í lagi í ljósi þess að sveitarfélögin hafa auðvitað markaða tekjustofna til að sinna þessum verkefni, eins og gatnagerðargjaldið og fleiri gjöld,“ segir Einar.

Hann segir að ef það ætti játa sveitarfélögum heimild til þess að leggja viðbótarinnviðagjöld ofan á þessa mörkuðu tekjustofna sé að hans viti um að ræða „viðbótarskattlagningu án lagastoðar, sem er brot á stjórnarskránni.“

Loftmynd af uppbyggingarsvæðinu í Vogabyggð frá því í mars á …
Loftmynd af uppbyggingarsvæðinu í Vogabyggð frá því í mars á þessu ári. Það er eitt þeirra svæða þar sem samið hefur verið við lóðarhafa um innviðagjöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ósammála um fordæmi frá Hæstarétti

Sigurborg segir að fyrir liggi fordæmi frá Hæstarétti Ísland sem styðji við það að sveitarfélögum sé heimilt að selja byggingarrétt sem einkaréttarleg réttindi. Fjallað var um þessar röksemdir í umsögn skrifstofu eigna og atvinnuþróunar hjá Reykjavíkurborg við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins í borgarráði fyrr á árinu.

Þar segir að niðurstaða Hæstaréttar í tveimur málum frá 2010 og 2011 hafi verið á þá leið að sveitarfélög væru talin hafa töluvert sjálfstæði við ákvörðunartöku um ýmis fjárhagsleg málefni sín og í því ljósi hafi ekki verið talið að með sölu á byggingarrétti og leigu á lóðum sveitarfélaga væri um ólögmæta gjaldtöku að ræða.

Einar segir að þarna sé um eðlisólík mál að ræða. „Í þessum hæstaréttarmálum tveimur sem hafa verið nefnd til sögunnar frá 2010 og 2011 þá var um að ræða gjaldtöku í tengslum við úthlutun lóða, sem eru ekki lögbundin verkefni sveitarfélaga. Hér er hins vegar um að ræða breytingu á deiliskipulagi, sem er á meðal lögbundinna verkefna borgarinnar. Þannig að það er algjör grundvallarmunur á þessu máli sem nú er rekið og þessum hæstaréttarmálum, þannig að borgin getur ekki skákað í skjóli þessara dóma og ég tel raunar að niðurstaða og forsendur þessara dóma styðji fremur málstað míns umbjóðanda í málinu heldur en hitt,“ segir Einar.

Óskað hefur verið eftir því að málið fái flýtimeðferð fyrir dómstólum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert