Vill að innrás Tyrkja verði fordæmd

Þórhildur Sinna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata.
Þórhildur Sinna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég kalla eftir því að ríkisstjórnin fordæmi þessa innrás og að hún geri það á réttum forsendum; að hún sé glæpur gegn friði sem megi ekki líðast. Jafnvel þó það gæti falið í sér að við þyrftum að horfa í spegil í kjölfarið,“ sagði Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, á Alþingi.

Þórhildur Sunna fjallaði um innrás tyrkneskra hersveita í norðurhluta Sýrlands undir liðnum störf þingsins. 

„Yfirlýst ástæða innrásinnar samkvæmt bandalagsþjóð okkar í NATO er að koma í veg fyrir aðgang hryðjuverkamanna að suðurhluta landamæra þeirra,“ sagði Þórhildur Sunna og hélt áfram:

„Í framhaldi heldur Tyrklandsforseti fram þeirri firru að með innrásinni muni Tyrkir varðveita landfræðilegt fullveldi Sýrlands og frelsa íbúa landsins frá hryðjuverkamönnum.“ 

Tyrkir hafa ráðist inn í Sýrland.
Tyrkir hafa ráðist inn í Sýrland. AFP

Þórhildur Sunna sagði að það væri alveg ljóst að innrásin væri glæpur gegn friði. Það sé alveg skýrt í stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna og í dómum Alþjóðadómstólsins í Haag að það sé glæpur þegar fullvalda ríki ráðist inn í annað fullvalda ríki án aðkomu öryggisráðs SÞ, að undanskilinni sjálfsvörn.

„Það á augljóslega ekki við í þessu tilfelli,“ sagði Þórhildur Sunna.

Hún ítrekaði ósk sína að ráðamenn kalli innrásina glæp gegn friði og ólögmæta innrás, þrátt fyrir hræsnina sem felst í því að gera það núna en ekki til að mynda þegar aðrar þjóðar hafa ráðist inn í Sýrland. 

„Einhvern tímann þurfum við að byrja að kalla hlutina réttum nöfnum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert