„Á að for­dæma þetta, eða sitja hjá?“

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mig langar að spyrja fjármálaráðherra hvort hann sé sammála þessum yfirlýsingum og um leið sammála þeirri yfirlýsingu sem kom mjög skýrt og afdráttarlaust fram frá þingflokki Vinstri grænna í gær, þar sem hann hvetur ríkisstjórnina til að fordæma þessa innrás og reyna að fara í aðgerðir sem stuðla að friði.“

Þetta kom fram í máli Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, formanns Viðreisnar, á Alþingi, þar sem hún vísaði til þeirra sem hafa fordæmt innrás Tyrkja í Sýrland. 

Hún spurði Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins um afstöðu hans flokks og ríkisstjórnarinnar til innrásarinnar.

Sumir segja, og eru þegar með yfirlýsingar um það, að byrjað sé að slátra þeim, eins og ein yfirlýsing var í blaði sem ég las í morgun,“ sagði Þorgerður Katrín. Hún bætti við að Evrópusambandið hefði fordæmt innrásina og sama mætti segja um Þjóðverja og Frakka.

Mig langar gjarnan að fá að vita hvernig ráðherrann sjái það hvernig ríkisstjórnin eigi að bregðast við þessu. Á að fordæma þetta, eða sitja hjá? Hver verða viðbrögð ríkisstjórnarinnar?“ spurði Þorgerður Katrín. 

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Málið verður rætt á réttum vettvangi

Bjarni sagði að þarna væri spurt um viðkvæmt svæði og málið yrði rætt á réttum vettvangi, í utanríkisnefnd, og eftir ætti að ræða það sérstaklega í ríkisstjórninni.

Það sem ég get sagt á þessum tímapunkti er: Að sjálfsögðu hefur maður djúpar og miklar áhyggjur af ástandinu á þessu svæði. Alls staðar þar sem mannslífum er fórnað er ástæða til þess að lýsa yfir miklum áhyggjum. Þetta er ófriðarsvæði, hefur verið stríðshrjáð um langt skeið, algjört hörmungarástand sem þar ríkir,“ sagði Bjarni.

Ég veit ekki hvort það væri til þess að hjálpa til við að laga það ástand að taka afstöðu með einstökum aðilum á deilusvæðinu,“ bætti Bjarni við og sagðist hafa miklar áhyggjur af stöðunni sem er kominn upp.

Tyrkneski herinn heldur uppi stöðugum loftárásum, og á jörðu niðri, …
Tyrkneski herinn heldur uppi stöðugum loftárásum, og á jörðu niðri, á svæði Kúrda í norðurhluta Sýrlands. Almennir borgarar flýja sprengjuregnið. AFP

Vill fá skýrari afstöðu frá Bjarna

Þorgerður Katrín sagðist vera hugsi yfir því hvort það sé samhljómur milli ríkisstjórnarflokkanna í málinu. „Mér fannst yfirlýsing Vinstri grænna mjög afdráttarlaus í gær þar sem í raun var hvatt til þess að ríkisstjórnin fordæmdi innrás Tyrkja í Sýrland,“ sagði hún.

Þorgerður Katrín sagðist sakna þess að fá ekki örlítið skýrari afstöðu frá formanni Sjálfstæðisflokksins hvað þetta hörmulega mál varðar.

Ég ítreka því spurningu mína: Er samstaða meðal stjórnarflokkanna í málinu? Mun fjármálaráðherra og Sjálfstæðisflokkurinn beita sér fyrir því að Ísland tali skýrri röddu í því máli?

Ekki hægt að horfa aðgerðalaust þegar mannslífum er fórnað

Bjarni sagði að meginmarkmið íslenskra stjórnvalda væri að tala fyrir því sem leitt geti til friðar á svæðinu þar sem mannlífum verði hlíft.

Það sem við sjáum gerast í þessu tiltekna dæmi er að þarna hafa mjög sterk öfl verið að takast á og í tilviki Bandaríkjamanna hafa þeir verið að koma inn á vígasvæði og eru að draga úr aðkomu sinni sem setur af stað atburðarás. Af hálfu Tyrkja er því haldið fram að það sé nauðsynlegt fyrir þá til að verja landamæri sín að grípa til aðgerða,“ sagði Bjarni.

Hann sagði að ekki væri hægt að horfa upp á það aðgerðalaust og átölulaust þegar mannslífum er fórnað í þúsundavís. Hann telur að best sé að forðast flokkspólitísk átök og koma skýrum skilaboðum út um frið og aðgerðir sem geti stuðlað að friði og uppbyggingu samfélaga sem eru í rúst á svæðinu.

mbl.is