Aftur grunur um e.coli-mengun í neysluvatni í Borgarfirði

Kort

Í morgun kom aftur upp grunur um gerlamengun í neysluvatni frá vatnsbóli Veitna í Grábrókarhrauni í Borgarfirði, en vatnsbólið þjónar Borgarnesi, Bifröst og Varmalandi, auk fjölda sumarhúsa og nokkurra lögbýla í Borgarfirði.

Þótt aðeins sé um grun að ræða mælast Veitur til þess að notendur á þessu svæði sjóði neysluvatn í öryggisskyni fram í miðja næstu viku. Þá verður kominn upp lýsingarbúnaður sem tryggir öryggi vatnsins. Sjóða þarf neysluvatn í að minnsta kosti eina mínútu.

Eftir að grunur var um gerla í vatninu á dögunum var ákveðið að setja upp lýsingarbúnað við vatnsbólið í Grábrókarhrauni og fylgjast daglega með vatnsgæðunum með sýnatöku. Sýnið, sem grunurinn beinist að, var tekið af starfsfólki Veitna og vísbending kom úr rannsókn á því nú í morgun. Dæmi eru um rangar vísbendingar af slíkum sýnum. Lýsing á vatni gerir örverur óvirkar og eykur þannig gæði vatnsins en hefur að öðru leyti engin áhrif.

Í ljósi þess að stutt er frá því að síðast kom upp grunur af þessu tagi í þessari vatnsveitu og stutt er í að lýsingarbúnaður verði virkur, ráðleggja Veitur íbúum að sjóða neysluvatn í öryggisskyni þangað til. Það er áætlað um miðja næstu viku og verða frekari upplýsingar gefnar þegar nánari tímasetning liggur fyrir.

mbl.is