Enginn „feitur“ starfslokasamningur

mbl.is/Hari

„Ég finn mig nú knúinn til að ræða opinskátt um veikindamál mín vegna ósanninda sem Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, hefur látið hafa eftir sér víða í fjölmiðlum á síðustu dögum,“ segir Þráinn Hallgrímsson sem var skrifstofustjóri Eflingar og eldri félaga frá Dagsbrún 1996-2018, í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag.

Þráinn Hallgrímsson.
Þráinn Hallgrímsson.

„Viðar segir að ég hafi kvatt Eflingu með „starfslokasamningi“ og gefur í skyn að um „feitan starfslokapakka“ hafi verið að ræða. Ekkert er fjær sanni. Viðar kýs að nota þetta orðalag í áróðri sínum gegn starfsmönnum Eflingar. Það var enginn feitur starfslokapakki gerður. Sólveig Anna tilkynnti mér brottrekstur minn frá Eflingu á starfsmannafundi og tilkynnti síðan einhliða hvenær ég ætti að hverfa af skrifstofu félagsins. Meginatriði samkomulags um viðskilnað við Eflingu eru um uppsagnarrétt, orlofsrétt, yfirvinnu og álagsgreiðslur vegna mikillar vinnu vegna kosningar í félaginu. Samkomulag mitt var einungis uppgjör samkvæmt ráðningarsamningi mínum. Þau lýsa þessu samkomulagi sem „starfslokasamningi“ þar sem það hentar betur til að sverta mannorð mitt. Þau Sólveig Anna og Viðar vita bæði betur.

Lúaleg aðför með ósannindum um veikindi mín

Mun alvarlegra er á hvern hátt Viðar Þorsteinsson lýsir veikindum mínum. Þar er um bein og mjög alvarleg ósannindi að ræða. Í viðtali á Stöð 2 21. september sl. sagði hann: „Við gerðum við hann (Þráin) starfslokasamning og þegar hann var við það að renna út, þá setti hann fram nýjar kröfur um einhvers konar framlengingu og einhvers konar viðbót á réttindum sem skilgreind voru í þeim samningi. Þetta var skoðað með tilliti til þess hvað eðlilegt sé að gefa fordæmi fyrir og hvað sé lagalegur fótur fyrir og niðurstaðan var að svo sé ekki, því miður,“ segir Viðar.

Hér fer Viðar með rangt mál eins og oft áður sem auðvelt er að afsanna með læknisvottorðum. Staðreyndin er sú að ég var orðinn veikur í júlímánuði. Ég veiktist í samkvæmi eins og hópur fólks varð vitni að. Veikindin hófust í sumarleyfi mínu og orlofssjóður Eflingar viðurkenndi veikindin. Þetta gerðist um mitt sumar eftir að ég var rekinn af skrifstofu Eflingar. Ég setti aldrei fram kröfur „þegar starfslokasamningur var við það að renna út“ eins og Viðar margítrekar. Óskir um breytingar urðu til vegna veikinda sem komu upp í sumarleyfi. Gögn mín sýna að ég var óvinnufær á þessum tíma. Þarna er aftur reynt að sverta mannorð mitt með uppspuna um „nýjar kröfur“,“ segir í grein Þráins en hana má lesa í heild í Morgunblaðinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert