Færð gæti spillst vegna snjókomu

Færð gæti spillst á fjallvegum á Norðausturlandi í dag.
Færð gæti spillst á fjallvegum á Norðausturlandi í dag. mbl.is/Eggert

Útlit er fyrir talsverða rigningu á norðaustanverðu landinu í dag. Búast má við auknu afrennsli og vatnavöxtum og er fólk hvatt til að huga að niðurföllum. Úrkoman mun að mestu falla sem snjókoma í fjöll og færð á fjallvegum getur spillst. Þetta kemur fram á vef Veðurstofu Íslands.

„Vaxandi norðaustanátt, víða stinningskaldi eða allhvasst í dag en hvassviðri norðvestan til í kvöld. Bjart veður sunnanlands, annars víða rigning, einkum á norðaustanverðu landinu og þar snjóar í fjöll. Hiti 3 til 10 stig, mildast syðst.

Norðaustan 8-13 m/s á morgun. Dálítil rigning eða slydda á Norður- og Austurlandi og stöku él með kvöldinu, en þurrt sunnan- og vestanlands.

Um helgina er útlit fyrir hægan vind, þurrt veður að mestu og svalt.Gengur í norðaustan 10-18 m/s í dag og 15-20 NV-til í kvöld, en hægari S- og A-lands. Víða rigning, talsverð úrkoma um landið NA-vert og snjókoma til fjalla, en þurrt á S-landi. Hiti 1 til 10 stig, mildast syðst,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á föstudag:
Norðaustan 8-13 m/s og dálítil slydda eða rigning á N- og A-landi, en bjart veður SV-lands. Hiti 1 til 9 stig, mildast syðst.

Á laugardag og sunnudag:
Hæg austlæg eða breytileg átt og skýjað með köflum. Vægt frost NA-lands, en upp í 6 stiga hita við S- og V-ströndina.

Á mánudag:
Austanátt og rigning SA-til á landinu, annars úrkomulítið. Heldur hlýnandi.

Á þriðjudag og miðvikudag:
Austanátt, rigning með köflum og milt veður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert