Framtíð norðurslóða ekki ákveðin án opins samtals

Svo að sátt náist um málefni norðurslóða og framtíð svæðisins …
Svo að sátt náist um málefni norðurslóða og framtíð svæðisins er nauðsynlegt að umræðan verði opin og lýðræðisleg þar sem allir geta tekið þátt, óháð aldri og stöðu, sagði Ólafur Ragnar Grímsson, formaður Arctic Circle og fyrrverandi forseti Íslands, í opn­un­ar­ræðu sinni á þingi hringborða norðurslóða – Arctic Circle , sem hófst í morgun í Hörpu og stendur fram á sunnudag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Framtíð norðurslóða verður ekki ákveðin án opins og heiðarlegs samtals, sagði Ólaf­ur Ragn­ar Gríms­son, formaður Arctic Circle, þegar hann flutti opn­un­ar­ræðu sína á þingi hringborða norðurslóða – Arctic Circle , sem hófst í morgun í Hörpu og stendur fram á sunnudag. 

Þetta er í sjöunda sinn sem ráðstefnan er haldin hér á landi. Í ár sækja um 2000 þátttakendur ráðstefnuna frá 50-60 löndum. Í 188 málstofum með rúmlega 600 ræðumönnum mun birtast hin nýja heimsmynd sem nú er í mótun þar sem norðurslóðir eru í vaxandi mæli vettvangur allra helstu forysturíkja veraldar. 

Á ráðstefn­unni verða rædd ýmis mál­efni sem snúa að norður­slóðum og líklegt er að tengsl loftslagsvánnar við norðurslóðir verði umfangsmikið umræðuefni. Tilgangur Arctic Circle er að skapa þverfag­leg­an vett­vang­ fyr­ir vís­inda­menn, stjórn­mála­menn, at­vinnu­lífið og al­menn­ing til skoðana­skipta. Stefna skipuleggjenda hefur frá upphafi verið að blanda ekki deilu­mál­um í öðrum heims­hlut­um inn í umræðuna um norðurslóðir. 

Í ár sækja um 2000 þátttakendur Arctic Circle ráðstefnuna frá …
Í ár sækja um 2000 þátttakendur Arctic Circle ráðstefnuna frá 50-60 löndum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þungamiðja landfræðistjórnmála

Ólafur Ragnar sagðist þakklátur fyrir þann aukna áhuga sem ráðstefnunni hefur verið sýndur á alþjóðavettvangi. Sagði hann það endurspegla hvernig norðurslóðir hafa þróast frá því að vera frekar áður óþekkt svæði í að verða þungamiðja landfræðistjórnmála (e. geopolitics) þar sem mörg af stærstu ríkjum heims sækjast eftir að vera þátttakendur. 

Málefni norðurslóða hafa sömuleiðis orðið umfangsmeiri hér á landi, ekki síst eftir að Donald Trump Bandaríkjaforseti lýsti yfir áhuga á að kaupa Grænland. Þá fór Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, yfir mikilvægi norðurslóða í Íslandsheimsókn sinni í síðasta mánuði þar sem hann sagði Ísland, nú sem áður, mikilvægan bandamann Bandaríkjanna. 

Ungir aðgerðasinnar jafnt sem leiðtogar heimsins taki þátt

Svo að sátt náist um málefni norðurslóða og framtíð svæðisins er nauðsynlegt að umræðan verði opin og lýðræðisleg þar sem allir geta tekið þátt, óháð aldri og stöðu, að sögn Ólafs Ragnars. „Ungir aðgerðasinna eiga að njóta sömu réttinda og forsætisráðherrar og aðrir leiðtogar heimsins til að koma skoðunum sínum á framfæri,“ sagði hann meðal annars. 

Þá greindi Ólafur Ragnar frá áframhaldandi vexti Arctic Circle en samningar hafa náðst við stjórnvöld í Þýskalandi og Japan um að halda ráðstefnu um norðurslóðir í Berlín næsta vor og í Tókýó í nóvember. Þá er einnig verið að ganga frá því að ráðstefna um norðurslóðir fari fram í París vorið 2021. 

Ólafur Ragnar segir að með því að ræða málefni norðurslóða á jafn fjölbreyttum stöðum landfræðilega og raunin verður, það er í Berlín, Tókýó og París, sé verið að senda skýr skilaboð um mikilvægi málefnisins. 

mbl.is