„Fullkomlega eðlilegt að gráta yfir þessu stóra máli“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Mér finnst það fullkomlega eðlilegt að gráta yfir þessu stóra máli og í raun og veru miklu óeðlilegra að gráta ekki yfir því. Þetta er mál sem er einstakt og hefur varpað löngum skugga, 40 ára gamalt óleyst sakamál sem hefur varpað löngum skugga, ekki bara sá angi þess sem er til umfjöllunar í þessu frumvarpi mínu, heldur margir aðrir angar og margir sem hafa átt um sárt að binda.“

Þetta sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í Kastljósi á RÚV í kvöld, er þáttarstjórnandinn Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir spurði hana hvort það færi í taugarnar á henni hvernig fjölmiðlar hefðu fjallað um það er Katrín klökknaði í ræðustól Alþingis á þriðjudagskvöld.

Katrín sagði svo ekki vera. „Ég er ánægð með það að þótt ég hafi verið lengi í pólítík, þá er ég líka tilfinningavera,“ sagði forsætisráðherra.

Hún sagði Guðmundar- og Geirfinnsmálið vera mjög erfitt, vegna þess að það snerist ekki um pólitík heldur um „miklu stærri hluti“, hvernig stjórnvöld dagsins í dag gætu gert yfirbót fyrir hluti sem gerðust fyrir áratugum.

Frumvarp Katrínar um málið hefur verið umdeilt í þinginu, en hún sagði það njóta stuðnings bæði ríkisstjórnarinnar og allra stjórnarflokkanna þriggja, þrátt fyrir að einstaka þingmenn úr þingliði ríkisstjórnarflokkanna hafi lýst sig mótfallna því.

Viðtal við Katrínu í Kastljósi má sjá í heild sinni hér

mbl.is