„Hentistefna og ógnarstjórn“

Magdalena Ásgeirsdóttir, læknir á Reykjalundi.
Magdalena Ásgeirsdóttir, læknir á Reykjalundi. mbl.is/Þórunn Kristjánsdóttir

„Við starfsfólk höfum ekki fengið neinar leiðbeiningar eða upplýsingar frá stjórn um hvernig við eigum að haga okkar starfi. Við treystum okkur ekki til þess að veita meðferð því við vitum ekki hver réttarstaða okkar er ef við myndum vinna einhverjum tjón eða hver réttarstaða skjólstæðinga okkar er,“ segir Magdalena Ásgeirsdóttir læknir, formaður læknaráðs á Reykjalundi og fulltrúi starfsmanna. 

Hún segir að réttarstaða starfsfólks þurfi að vera á hreinu áður en starfsmenn sinna sjúklingum á Reykjalundi. Í morgun var öllum sjúklingum í endurhæfingu sendir heim. Ástæða er sú að framkvæmdastjóra lækninga var sagt upp störfum í gær og því telja starfsmenn réttaróvissu í gildi. 

Hefði átt að greina starfsfólkinu frá stöðunni í gær

Á starfsmannafundinum sem haldinn var á Reykjalundi í hádeginu í dag las Sveinn Guðmundsson, formaður stjórnar SÍBS og starfandi forstjóri Reykjalundar, upp svör við spurningum stjórnar til landlæknis. Þar var spurt hvort stofnun eins og Reykjalundur væri stjórntæk ef framkvæmdastjóra lækninga nyti ekki við og svarið við þeirri spurningu var að svo væri tímabundið.

„Þetta kemur of seint. Hann hefði átt að gera það í gær um leið og hann sagði upp framkvæmdastjóra lækninga,“ segir Magdalena um þessi svör Sveins. Hún ítrekar að hann hefði átt að upplýsa starfsfólkið um þessar upplýsingar eftir uppsögn gærdagsins svo starfsfólkið væri ekki í lausu lofti. 

„Enginn hefur gefið okkur upplýsingar um hvað við eigum að gera,“ segir Magdalena spurð hvort sjúklingar fái viðeigandi meðferð á morgun. 

„Það eru allir í mikilli sorg. Það var sorg þegar forstjóranum var sagt upp fyrirvaralaust. Ennþá meiri sorg þegar framkvæmdastjóra lækninga var sagt upp sem var að setjast í helgan stein og var rekinn í burtu fyrirvaralaust. Hann hefur unnið allan sinn starfsferil hér á Reykjalundi eftir að hann kláraði sérfræðinám í endurhæfingarlækningum. Það er eins og heilli starfsævi hafi verið hent út um gluggann,“ segir hún spurð út í ástandið á stofnuninni.

Skora á heilbrigðisráðherra að grípa inn í ástandið

114 manns starfs­menn á Reykjalundi hafa lýst yfir van­trausti á stjórn Reykjalund­ar. Í morgun var listinn afhentur fulltrúa heilbrigðisráðherra í heilbrigðisráðuneytinu. Magdalena skrifaði undir og fór með listann í heilbrigðisráðuneytið. „Það hefðu fleiri viljað skrifa undir listann en náðu því ekki því við þurftum að fara með hann fyrir starfsmannafundinn í hádeginu,“ segir Magdalena. Nálægt 200 sérfræðingar eru að störfum hjá Reykjalundi. 

„Við báðum hann að grípa inn í ástandið hér með þeim hætti sem hann getur,“ segir hún. Reykjalundur er stofnun sem er rekin með opinberu fé og veittir eru um tveir milljarðar til rekstrar stofnunarinnar árlega. Starfsemin er rekin af sjúklingasamtökum. 

„Það er eins og þetta sé hentistefna og ógnarstjórn. Við vitum ekkert hvað gerist næst,“ segir Magdalena. Hún bendir á að það sé ógn við starfseminni að víkja æðstu stjórnendum úr störfum á staðnum. „Fjarlægð“ er lýsing Magdalenu á upplifun sinni á stjórn SÍBS.   

Á fundinum sem var um 15 mínútna langur var ekki gefinn kostur á neinum spurningum úr sal. 

Fréttin hefur verið uppfærð. Upphaflega var greint frá því að Sveinn hafi lesið upp bréf frá landlækni á starfsmannafundi. Hið rétta er að hann las upp svör embætti landlæknis við spurningum stjórnar SÍBS um hvort Reykjalundur væri stjórntækur ef framkvæmdastjóra lækninga nyti ekki við. 

Starfsmannafundur á Reykjalundi.
Starfsmannafundur á Reykjalundi. mbl.is/Þórunn Kristjánsdóttir
mbl.is