„Hjá okkur má vera maður sjálfur“

Eymundur Eymundsson, ráðgjafi hjá Grófinni. .
Eymundur Eymundsson, ráðgjafi hjá Grófinni. . Haraldur Jónasson/Hari

„Við erum Geðhjálp, Hugarafl, Geysir og Hlutverkasetur fyrir Norðurland.“ Þetta segir Eymundur Eymundsson, ráðgjafi hjá Grófinni sem er geðverndarmiðstöð á Akureyri. Miðstöðin fagnar sex ára afmæli sínu í dag, þangað leita hátt í 200 manns á ári og biðlar Grófin nú til stjórnvalda um fjárframlög.

Starfsemi Grófarinnar fer að mestu leyti fram í sjálfboðaliðastarfi, en miðstöðin nýtur stuðnings Vinnumálastofnunar, sem borgar hluta af kostnaði við stöðu sálfræðings og fær framlög frá VIRK. Að auki styðja ýmis frjáls félagasamtök á svæðinu við starfsemina. 

En það dugar ekki til, að sögn Eymundar sem segir brýnt að Grófin komist á föst fjárlög. „Við funduðum með Ásmundi Einari Daðasyni félagsmálaráðherra nýverið og hann tók ágætlega í þessa hugmynd. Við höfum líka átt samtöl við þingmenn á svæðinu. Okkur hefur þótt Ásmundur vera meira vakandi fyrir geðheilbrigðismálum en margir aðrir félagsmálaráðherrar og bindum vonir við að eitthvað fari að gerast í þessum málum.“

Halda fræðslufundi fyrir almenning

Til Grófarinnar koma um 160 manns á öllum aldri af ýmsum ástæðum á hverju ári. Eymundur segir að þar sé veitt sálfræðiaðstoð auk jafningjaaðstoðar. Mikilvægt sé að geta rætt við fólk sem sé í sömu sporum. „Hjá okkur má vera maður sjálfur og hér er það nóg.“

Þá sé þar boðið upp á fræðslu fyrir aðstandendur geðsjúkra og reglulega eru haldnir fræðslufundir fyrir almenning þar sem geðverndarmál eru rædd frá mörgum hliðum. Hann segir þá fundi hafa vera afar vel sótta af fólki á svæðinu. „Við erum að opna umræðuna. Markmiðið er að draga úr fordómum - það skiptir allt samfélagið máli.“

Í könnun, sem gerð var 2017 meðal þeirra sem nýttu sér þjónustu Grófarinnar kom m.a. fram að þar gæfist tækifæri til að rjúfa félagslega einangrun. „Þú getur farið á þínum hraða - hér er hver á sínum forsendum,“ sagði einn notandinn. Annar sagði að hjá Grófinni gæfist honum von um betri framtíð og enn einn sagðist fá þar tækifæri til að nýta hæfileika sína.

Eiga afmæli á alþjóðageðheilbrigðisdeginum

Afmæli Grófarinnar ber upp á 10. október sem er alþjóðageðheilbrigðisdagurinn og er hann helgaður forvörnum gegn sjálfsvígum. Eymundur segir margt verða gert í tilefni afmælisins og alþjóðadagsins, einna hæst beri tónleika sem haldnir verða á á Græna hattinum á Akureyri í kvöld þar sem fjölmargir tónlistarmenn koma fram sem allir gefa vinnu sína. Selt verður inn á tónleikana og mun ágóðinn renna til Grófarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert