Ítrekaði að starfsfólk ber skyldur gagnvart sjúklingum

„Það er trúnaðarmál milli okkar að við lukum samskiptum okkar …
„Það er trúnaðarmál milli okkar að við lukum samskiptum okkar með þessum hætti. Við ætlum að halda þann trúnað,“ sagði Sveinn Guðmundsson, fomaður SÍBS og starfandi forstjóri Reykjalundar. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Gerð var grein fyrir því og það yddað fyrir fólki að það ber skyldur gagnvart sjúklingum sem hingað sækja. Það er frumskylda okkar. Ég held að allir sem hér sátu geri sér grein fyrir því,“ sagði Sveinn Guðmundsson, fomaður SÍBS og starfandi forstjóri Reykjalundar, að loknum um 15 mínútna fundi með starfsmönnum Reykjalundar í hádeginu í dag. 

Sjúklingar sem sækja endurhæfingu á Reykjalund voru sendir heim í morgun. Starfsmenn sem koma að endurhæfingu þeirra töldu sig ekki geta sinnt starfi sínu gagnvart þeim því framkvæmdastjóra lækninga á Reykjalundi var sagt upp störfum í gær. Sveinn segir það ekki samræmast lögum og reglum að sjúklingum hafi verið gert að fara heim í morgun. 

„Það er trúnaðarmál milli okkar að við lukum samskiptum okkar með þessum hætti. Við ætlum að halda þann trúnað,“ sagði Sveinn, spurður hvers vegna Magnúsi Ólasyni, fram­kvæmda­stjóra lækn­inga, hafi verið sagt upp störfum. Sveinn fullyrðir að engar frekari uppsagnir séu í kortunum.

Fyrir mánaðamót var gerður starfslokasamningur við Birgi Gunnarsson, fyrrverandi forstjóra Reykjalundar. Á fundinum gerði Sveinn grein fyrir því að líklega í næstu viku tæki nýr framkvæmdastjóri lækninga við störfum en ráðningaferlið væri langt komið. Á næstunni verður auglýst staða forstjóra Reykjalundar. 

„Auðvitað er öllum órótt um að þurfa að fara í þessar aðgerðir sem við fórum í en stjórnin taldi það nauðsynlegt og það raðaðist svona upp,“ sagði Sveinn spurður út í viðbrögð fólks eftir fundinn. 

Spurður hvort ekki hefði verið betra að upplýsa starfsfólk um stöðuna sagði Sveinn „ekki eins og málin þróuðust“.   

mbl.is