Loftslagsvá í stað loftslagsbreytinga

Viktoría krónprinsessa Svíþjóðar á opnun Arctic Circle ráðstefnunnar í Hörpu …
Viktoría krónprinsessa Svíþjóðar á opnun Arctic Circle ráðstefnunnar í Hörpu í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Viktoría krónprinsessa af Svíþjóð talaði um mikilvægi þess að aukin áhersla verði lögð á vísindi í ákvarðanatöku tengdri norðurslóðum þegar hún ávarpaði ráðstefnugesti á Arctic Circle í Hörpu í dag. Þá telur hún að Norðurlöndin geti verið góða fyrirmyndir fyrir önnur ríki þegar kemur að málefnum norðurslóða. 

Arctic Circle er þriðji viðburðurinn um málefni norðurslóða sem krónprinsessan sækir á einni viku, en hún sótti meðal annars ráðstefnu Evrópusambandsins um norðurslóðir fyrir nokkrum dögum og sagðist hún ánægð með virka þátttöku ESB í málefnum norðurslóða. 

Áhrifaríkt að sjá loftslagsbreytingar með eigin augum

Viktoría segir áhuga Svía á norðurslóðum ná aftur til 19. aldar og vísaði hún í forföður sinn Óskar II Svíakonung, máli sínu til stuðnings. Hann stofnaði Bernadotte-bókasafnið sem er í konungshöllinni í Stokkhólmi og þar má finna fjöldann allan af bókum um rannsóknir á norðurslóðum allt frá byrjun 19. aldar. 

Viktoría sigldi um Svalbarða fyrir skömmu og sá þá með eigin augum áhrif loftslagsbreytinga. Með henni í för voru Friðrik krónprins Danmerkur og Hákon krónprins Noregs. „Við vorum meðvituð um alvarleika loftslagsbreytinga en að sjá áhrifin með eigin augum er eitthvað sem hafði djúp áhrif á mig og ég mun aldrei gleyma,“ sagði Viktoría. Eftir þessa reynslu opnuðust augu hennar frekar fyrir áhrifum loftslagsbreytinga. 

Viktoría krónpsinsessa Svíþjóðar, Dorrit Moussaieff og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á …
Viktoría krónpsinsessa Svíþjóðar, Dorrit Moussaieff og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á opnun Arctic Circle 2019 í Hörpu í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þakkaði Ólafi Ragnari fyrir vel unnin störf í þágu norðurslóða

„Norðurslóðir er hnattrænt svæði sem krefst hnattrænna áhrifa,“ sagði Viktoría og þakkaði í framhaldinu Ólafi Ragnari Grímssyni fyrir framtak sitt í málefnum norðurslóða en þetta er í sjöunda sinn sem Arctic Circle fer fram hér á landi. 

Að lokum vakti Viktoría athygli á orðfærinu um loftslagsmál, sem hefur þróast líkt og aukinn áhugi á málefninu. Ekki er langt síðan var tíðrætt um loftslagsbreytingar en nú er loftslagskrísa eða loftslagsvá orðið algengara, líkt og Viktoría upplifði sjálf þegar hún tók þátt í ráðstefnu Evrópusambandsins fyrir nokkrum dögum. 

„Ég held að það segi allt sem segja þarf um alvarleika málsins,“ sagði prinsessan. 

mbl.is